Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts af björgunarbúnaði

Úrskurður nr. 52/2025

Lög nr. 50/1988, 36. gr. 2. mgr.   Lög nr. 88/2005, 7. gr. 1. mgr. 12. tölul.   Reglugerð nr. 630/2008, 42. gr.  

Með úrskurði yfirskattanefndar í máli þessu var ákvörðun tollgæslustjóra um að synja beiðni björgunarsveitar um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á tilteknum búnaði fyrir hús, sem sveitin hugðist nota sem færanlega stjórnstöð í björgunarútköllum, hnekkt. Var kæran send tollgæslustjóra til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Ár 2025, mánudaginn 7. apríl, er tekið fyrir mál nr. 139/2024; kæra A, dags. 19. september 2024, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts. Í málinu úrskurða Þórarinn Egill Þórarinsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 19. september 2024, hefur Slysavarnarfélagið Landsbjörg, f.h. kæranda, skotið til yfirskattanefndar ákvörðun tollgæslustjóra, dags. 1. júlí 2024, að synja beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, sbr. 12. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og 42. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Samkvæmt gögnum málsins varðaði beiðni kæranda virðisaukaskatt vegna kaupa kæranda á 20 feta gámahúsi með krókheysisgrind og merkingum, loftnets- og tölvubúnaði og tilheyrandi raflagnaefni fyrir húsið, sem kærandi hyggst nota sem færanlega stjórnstöð í björgunarútköllum. Tollgæslustjóri byggði ákvörðun sína á því að umræddur búnaður teldist ekki vera björgunarbúnaður í skilningi 42. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Í kærunni er þess krafist að fallist verði á beiðni kæranda um niðurfellingu virðisaukaskatts af keyptum björgunarbúnaði. Kærandi hafi fest kaup á gámi og búnaði inn í gáminn sem nýtist sem færanleg stjórnstöð fyrir björgunaraðgerðir. Með því að nota færanlega stjórnstöð sé hægt að færa stjórnun nær vettvangi björgunarútkalla. Búnaðurinn verði eingöngu nýttur til björgunarstarfa. Um sé að ræða færanlegan gám með áfastri krókheysisgrind sem geri það að verkum að björgunarsveitabifreiðar með slíkan búnað geti flutt gáminn á milli staða. Virðisaukaskattur hafi fengist felldur niður á sambærilegum búnaði undanfarin ár. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2024, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Umsókn kæranda frá 31. maí 2024 varði endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sjö sölureikninga frá sex fyrirtækjum. Nánar tiltekið sé um að ræða sölureikninga fyrir 20 feta gámahýsi og krókheysisgrind, fyrir merkingu á gáminn auk vinnu, fyrir loftnetum, köplum og tengjum, fyrir tengidósum, tenglum, snúrum og öðru raflagnaefni, fyrir beini, GSM loftneti, köplum og veggfestingu og loks fyrir m.a. tölvum, sjónvörpum, skjáum og fjölnota prenttæki. Í umsókninni hafi komið fram að búnaðurinn verði einungis nýttur til björgunarstarfa og stjórnun þeirra, en ákveðnir björgunarsveitarbílar muni geta flutt gáminn á milli staða og þannig sé mögulegt að færa stjórnun útkalla nær vettvangi útkalla. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skuli m.a. endurgreiða virðisaukaskatt í þeim tilfellum sem talin séu upp 2.–12. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, en í 12. tölul. 1. mgr. 7. gr. komi fram að björgunarbúnaður og björgunartæki skuli vera undanþeginn aðflutningsgjöldum svo lengi sem fyrir liggi staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn verði einungis nýttur í starfsemi björgunarsveita. Skilyrði fyrir endurgreiðslu séu því tvö, annars vegar að um sé að ræða björgunartæki eða björgunarbúnað fyrir björgunarsveitir og hins vegar að fyrir liggi staðfesting Landsbjargar á að búnaðurinn og tækin verði eingöngu nýtt í starfsemi björgunarsveita. Í tilviki kæranda sé síðara skilyrðið uppfyllt en synjun tollyfirvalda hafi byggt á því að umræddar vörur hafi ekki verið björgunarbúnaður eða tæki í skilningi 12. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2005. Að mati tollyfirvalda séu umþrætt kaup á vörum í eðli sínu fyrir nokkurs konar færanlega skrifstofu en ekki eiginlegan björgunarbúnað eða björgunartæki heldur gám, tölvuvörur og raflagnaefni auk tengibúnaðar. Í framkvæmd hafi verið miðað við að björgunartæki og björgunarbúnaður sé búnaður, t.d. verkfæri og áhöld, sem séu notuð á vettvangi við björgunarstörfin sjálf en ekki lausafé sem sé almenns eðlis og notað á skrifstofum björgunarsveita, eins og t.d. húsgögn, tölvur og prenttæki. Þá sé sölureikningi vegna merkingar á gám sérstaklega mótmælt þar sem ekki geti undir neinum kringumstæðum verið um að ræða björgunarbúnað.

Með bréfi, dags. 3. desember 2024, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Umsókn kæranda varði búnað sem eingöngu sé notaður á vettvangi fyrir svæðisstjórn þegar erfið björgunar-, leitar- eða almannavarnaútköll komi upp. Stjórnvöld hafi lagt mikla áherslu á uppbyggingu aðgerðastjórnstöðva í hverju lögregluumdæmi, svo sem sjá megi í stefnu í almanna- og öryggismálum. Samhliða þessu hafi viðbragðsaðilar á landinu unnið að uppbyggingu á aðstöðu til vettvangsstjórnar. Sem dæmi um slíkt megi nefna færanlega stjórnstöð björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu og færanlega stjórnstöð björgunarsveita á Norðurlandi. Af hálfu kæranda hafi verið ákveðið að byggja upp færanlega stjórnstöð með því að innrétta gámahús í eigu björgunarsveitar sem hægt væri að flytja með vörubíl á vettvang. Eins og annar björgunarbúnaður sé hin færanlega stjórnstöð vel merkt sem slík. Stjórnstöðin sé upphituð og búin nauðsynlegum tölvu- og fjarskiptabúnaði svo að hægt sé að sinna vettvangsstjórnun þaðan við ólíkar og oft erfiðar aðstæður. Búnaðurinn sé hluti af stjórnstöðinni og ekki notaður annars staðar, þ.e. hann sé festur niður þar. Stjórnstöðvar af þessu tagi gegni lykilhlutverki þegar björgunarsveitir sinni erfiðum útköllum. Við slíkar aðstæður sé virk og öflug stjórnun aðgerða jafn mikilvæg og beinar aðgerðir leitar- og björgunarhópa. Þess vegna hafi verið lögð vaxandi áhersla á það í starfi björgunarsveita að efla stjórnunarþáttinn þegar komi að leitar-, björgunar og almannavarnaraðgerðum. Þegar slíkar aðgerðir fari fram séu að jafnaði tvær stjórnunareiningar til staðar í héraði. Aðgerðastjórn sé staðsett í aðgerðarstjórnstöð og vettvangsstjórn sé staðsett sem næst vettvangi. Til þess að stjórnun aðgerða gangi sem skyldi sé samspil þessara tveggja stjórneininga lykilatriði og skipti þar öllu máli að samskipti og skipulag gangi vel fyrir sig. Það sé því mikilvægt að til staðar sé góð aðstaða hvort tveggja í aðgerðastjórn sem og á vettvangi svo að hægt sé að sinna stjórnun aðgerða.

Þá afstöðu tollyfirvalda, að um hafi verið að ræða kaup á skrifstofubúnaði, sé að mati kæranda ekki hægt að samþykkja. Búnaður sem þessi sé nauðsynlegur og órjúfanlegur þáttur í björgunaraðgerðum og jafn mikilvægur hluti þeirra og sérbúin ökutæki, snjóbílar, snjósleðar og bátar, svo dæmi séu tekin. Þeir liðsmenn björgunarsveita sem komi að vinnu í stjórnstöð gegni jafn mikilvægu hlutverki og þeir sem annist beinar björgunar- og leitaraðgerðir á aðgerðasvæðum og allt vinni það fólk sem sinni þessum hlutverkum saman sem ein heild. Í umsögn tollyfirvalda segi að í framkvæmd hafi verið miðað við að björgunartæki og björgunarbúnaður sé búnaður t.d. verkfæri og áhöld, sem séu notuð á vettvangi við björgunarstörfin sjálf. Sú sé einmitt raunin hér, en færanlegar stjórnstöðvar séu útbúnar í þeim eina og sérstaka tilgangi að vera notaðar á vettvangi björgunaraðgerða við björgunarstörfin sjálf, til skipulags og utanumhalds björgunaraðgerða á vettvangi og í beinni snertingu við þolendur atburða. Hvað varði athugasemd tollyfirvalda sem lúti að merkingum, þá sé þeim alfarið hafnað. Það sé alþekkt að sérútbúinn björgunarbúnaður björgunarsveita sé vel merktur sem slíkur. Hann sé búinn viðeigandi merkingum svo að ekki verði um villst að um sé að ræða sérútbúin björgunartæki, auk þess sem búnaður af þessu tagi sé sérstaklega búinn endurskinsmerkingum, enda algengt að tækin séu notuð við erfiðar aðstæður þar sem skyggni sé vont. Merkingar séu þannig nauðsynlegur hluti af öryggisbúnaði björgunartækja- og búnaðar.

Á árinu 2023 hafi tollyfirvöld fallist á framangreind sjónarmið þegar samþykkt hafi verið beiðni um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á nauðsynlegum tækjabúnaði til innréttingar á færanlegri stjórnstöð, þar með talið merkingum, fyrir annað svæði. Um hafi verið að ræða sams konar búnað og þann sem tollyfirvöld vilji nú meina að sé „lausafé sem sé almenn eðlis og notað á skrifstofum björgunarveita“. Hin kærða niðurstaða sé þannig í andstöðu við fyrri framkvæmd. Með bréfinu fylgja gögn viðvíkjandi umsókn vegna stjórnstöðvar á öðru svæði. Í niðurlagi bréfsins er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði. Þann 15. janúar 2025 bárust yfirskattanefnd svo gögn í tölvupósti til stuðnings málskostnaðarkröfu. Nemur umkrafinn málskostnaður samtals 126.400 kr. vegna þriggja tíma vinnu umboðsmanns kæranda við málið.

Með tölvupósti 3. mars 2025 staðfesti tollgæslustjóri við yfirskattanefnd að fallist hefði verið á umsókn björgunarsveitar um endurgreiðslu virðisaukaskatts á árinu 2023 vegna kaupa á búnaði til innréttingar á færanlegri stjórnstöð fyrir annað svæði. Telji tollgæslustjóri því liggja beinast við að embættið fái umsókn kæranda senda aftur til afgreiðslu og samþykktar.

III.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af björgunarbúnaði, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Samkvæmt ákvæði þessu skal fella niður, lækka eða endurgreiða virðisaukaskatt í þeim tilvikum sem talin eru upp í 2.–12. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar eru tilgreind. Samkvæmt 12. tölul. ákvæðisins skal lækka, fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af björgunarbúnaði og björgunartækjum, enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn verði einungis nýttur í starfsemi björgunarsveita. Um tollfrelsi búnaðar björgunarsveita er nánar fjallað í 42. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Þar kemur fram að björgunarbúnaður og björgunartæki, önnur en ökutæki, sem björgunarsveitir eða viðurkennd heildarsamtök þeirra flytji inn séu undanþegin aðflutningsgjöldum, enda verði þau eingöngu nýtt í starfsemi björgunarsveitar. Tollstjóri geti áskilið að viðurkennd heildarsamtök björgunarsveita lýsi því yfir að um sé að ræða björgunartæki og -búnað sem verði eingöngu nýtt til starfsemi björgunarsveitar. Þá kemur fram að ökutæki, sérútbúin til björgunarstarfa, sem björgunarsveitir eða viðurkennd heildarsamtök þeirra flytji inn, séu undanþegin virðisaukaskatti, enda séu skilyrði niðurfellingar vörugjalds samkvæmt 17. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, uppfyllt. Loks er kveðið á um að tæki og búnaður sem sé undanþeginn aðflutningsgjöldum samkvæmt þessari grein skuli auðkenndur sérstaklega með nafni heildarsamtakanna eða viðkomandi björgunarsveitar.

Í tilviki kæranda taldi tollgæslustjóri að fyrir lægi staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að búnaðurinn yrði aðeins nýttur í starfsemi björgunarsveita. Á hinn bóginn taldi tollgæslustjóri að ekki væri um björgunarbúnað að ræða í skilningi fyrrgreindra laga- og reglugerðarákvæða. Þá gerði tollgæslustjóri sérstaka athugasemd við sölureikning frá M ehf. vegna merkingar á umræddu gámahúsi sem gæti ekki undir neinum kringumstæðum talist björgunarbúnaður. Vegna þess síðastnefnda er rétt að taka fram að í 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er sérstaklega tilgreint að tæki og búnaður sem sé undanþeginn aðflutningsgjöldum samkvæmt umræddri grein reglugerðarinnar skuli auðkenndur sérstaklega með nafni heildarsamtakanna eða viðkomandi björgunarsveitar. Verður því ekki fallist á með tollgæslustjóra að slíkur kostnaður geti ekki í neinum tilvikum fallið undir umrædda endurgreiðsluheimild.

Samkvæmt því sem komið hefur fram af hálfu kæranda er grundvöllur endurgreiðslubeiðninnar færanleg stjórnstöð til nota á vettvangi fyrir svæðisstjórn við björgunar-, leitar eða almannavarnaútköll. Liggur sem fyrr segir fyrir viðurkenning heildarsamtaka björgunarsveita um að um sé að ræða björgunartæki og -búnað sem verði eingöngu nýtt til starfsemi björgunarsveita, sbr. 1. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 630/2008, en kæran til yfirskattanefndar er send í nafni Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Þykir ekkert fram komið í málinu sem gefur tilefni til að draga málatilbúnað kæranda í efa hvað þetta varðar. Þá er fram komið af hálfu tollgæslustjóra að við yfirferð á eldri umsóknum hafi verið fallist á hliðstæða umsókn annarrar björgunarsveitar á árinu 2023 vegna færanlegrar stjórnstöðvar, en þar var um að ræða sambærilegan búnað og merkingar á umræddri stjórnstöð. Eins og málið liggur fyrir með vísan til framanritaðs verður að hnekkja hinni kærðu synjun tollgæslustjóra. Samkvæmt þessu þykir rétt að senda tollgæslustjóra kæruna til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.

Af hálfu kæranda er höfð uppi krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Umkrafinn kostnaður vegna kæru til yfirskattanefndar nemur 126.306 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti vegna þriggja klukkustunda vinnu við málið. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar frá 21. nóvember 2014 um ákvörðun málskostnaðar, þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 100.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða ákvörðun tollgæslustjóra er felld úr gildi. Kæran er send tollgæslustjóra til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 100.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja