Úrskurður yfirskattanefndar

  • Starfstengd hlunnindi
  • Tækifærisgjöf
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Álag á vangreidda staðgreiðslu

Úrskurður nr. 53/2025

Staðgreiðsla 2019-2022

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. og 4. tölul., 50. gr. 1. tölul., 118. gr.   Lög nr. 45/1987, 1. gr., 4. gr., 5. gr., 7. gr., 15. gr., 20. gr., 28. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 2019-2023.  

Í máli þessu var deilt um hvort kæranda, sem var einkahlutafélag, bæri að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjaldi af starfstengdum hlunnindum starfsmanna félagsins vegna afhendingu gjafakorta til þeirra, þ.e. inneignarkorta í bönkum. Í úrskurði yfirskattanefndar voru reifuð ákvæði skattalaga um gjafir, þar á meðal tækifærisgjafir til starfsmanna, og talið að skýra bæri þau til samræmis þannig að beinar gjafir til starfsmanna í reiðufé gætu ekki talist til tækifærisgjafa í skilningi laganna. Var talið verða að ganga út frá því að gjafakort sem málið varðaði væru þeirrar náttúru að fást skipt fyrir reiðufé að sömu fjárhæð hjá útgefanda þeirra og yrðu því lögð að jöfnu við beinar fjárgreiðslur. Var fallist á með ríkisskattstjóra að afhending gjafakorta þessara teldist til skattskyldra tekna starfsmanna kæranda og að borið hefði að reikna staðgreiðslu af þeim. Á hinn bóginn var krafa kæranda um niðurfellingu álags á vangreidda staðgreiðslu tekin til greina þar sem talið var að á þeim tíma sem málið varðaði hefði verið álitamál hvernig standa bæri að skilum á staðgreiðslu vegna afhendingar slíkra korta til starfsmanna, m.a. í ljósi skattmatsreglna.

Ár 2025, mánudaginn 7. apríl, er tekið fyrir mál nr. 133/2024; kæra A ehf., dags. 11. september 2024, vegna ákvörðunar skilaskyldrar staðgreiðslu og tryggingagjalds staðgreiðsluárin 2019, 2020, 2021 og 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 11. september 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 13. júní 2024, um endurákvörðun á skilaskyldri staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjaldi kæranda staðgreiðsluárin 2019, 2020, 2021 og 2022. Lutu breytingar ríkisskattstjóra að staðgreiðslu vegna starfstengdra hlunninda starfsmanna kæranda, þ.e. gjafakorta sem látin voru starfsmönnum í té á greindum árum. Nam fjárhæð vangreiddrar skilaskyldrar staðgreiðslu samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra 3.407.715 kr. staðgreiðsluárið 2019, 5.212.302 kr. staðgreiðsluárið 2020, 5.173.119 kr. staðgreiðsluárið 2021 og 3.616.750 kr. staðgreiðsluárið 2022. Við þær fjárhæðir bætti ríkisskattstjóri álagi samkvæmt 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Fjárhæð vangreidds tryggingagjalds nam alls 608.850 kr. rekstrarárið 2019, 944.581 kr. rekstrarárið 2020, 1.003.371 kr. rekstrarárið 2021 og 730.250 kr. rekstrarárið 2022.

Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að tekjufærðar fjárhæðir verði lækkaðar. Þá er þess krafist að álag verði fellt niður. Loks er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 15. janúar 2024, og svarbréf kæranda, dags. 25. sama mánaðar, og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 12. mars og 17. apríl 2024, og bréf kæranda, dags. 13. maí sama ár, þar sem fyrirhuguðum breytingum var mótmælt. Forsendur ríkisskattstjóra fyrir endurákvörðun skilaskyldrar staðgreiðslu og tryggingagjalds kæranda voru í stuttu máli þær að félaginu hefði borið að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds af gjafakortum sem afhent hefðu verið starfsmönnum sem almennar jóla- og tækifærisgjafir á árunum 2019-2022. Vísaði ríkisskattstjóri í því sambandi til ákvæða 1. tölul. 5. gr., 1. mgr. 7. gr., 3. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 1. mgr. 1. gr. og 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Fram kom að ótvírætt væri samkvæmt hinu síðastnefnda ákvæði laga nr. 90/2003 að beinar gjafir í peningum til starfsmanna væru skattskyldar launatekjur þeirra sem halda bæri eftir staðgreiðslu og tryggingagjaldi af. Ekki væri því aðeins kveðið á um skattskyldu slíkra hlunninda í skattmatsreglum ríkisskattstjóra sem gefnar væru út árlega á grundvelli 118. gr. laga nr. 90/2003. Reglur skattalaga um gjafir og annan viðurgjörning launagreiðenda við starfsmenn hefðu verið efnislega óbreyttar um árabil og ætíð verið litið svo á að um skattskyldar tekjur væri að ræða. Ekki væri því um að ræða neina efnislega breytingu með áréttingu þessa í skattmatsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2023, þ.e. gjafir í beinhörðum peningum teldust ávallt til starfstengdra hlunninda sem skattskyld væru.

Vegna sjónarmiða kæranda í andmælabréfi félagsins, dags. 13. maí 2024, kom fram í úrskurði ríkisskattstjóra að ekki yrði fallist á það með kæranda að skilyrði fyrir skattskyldu gjafa væri að gjafir kæmu í stað launa. Yrði slík ályktun engan veginn dregin af ákvæðum reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 6. tölul. A-liðar 13. gr. hennar þar sem einfaldlega væri tekinn af vafi um að ekki einungis beinar peningagjafir teldust til skattskyldra launatekna. Ekki væri því um nýja reglu að ræða. Með tækifærisgjöfum í 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 væri átt við aðrar gjafir en beinar peningagjafir eins og inneign á bankakorti. Yrði því ekki tekið undir með kæranda að gjafakort félagsins gætu fallið undir undanþágu vegna tækifærisgjafa.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að ágreiningur málsins virðist einskorðast við form þeirra gjafa sem um sé deilt, enda hafi ekki verið dregið í efa að fjárhæðir gjafanna séu hóflegar miðað við tilefni þeirra. Ríkisskattstjóri telji þannig að gera verði greinarmun á jóla- og afmælisgjöfum eftir formi þeirra, en á það verði ekki fallist. Skattmatsreglur þurfi að eiga sér stoð í lögum og vera í samræmi við lög, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Í 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, þar sem tækifærisgjafir séu undanþegnar tekjuskatti, sé enginn greinarmunur gerður á formi gjafa. Engin lagaheimild sé því fyrir þeirri túlkun að beinar gjafir í peningum teljist ávallt til skattskyldra tekna. Í skattframkvæmd hafi hóflegar jólagjafir til starfsmanna ávallt verið taldar undanþegnar skattlagningu, svo sem skattmatsreglur beri með sér. Engin málefnaleg rök hafi komið fram fyrir því að gjafakort frá bönkum séu skattskyld frekar en gjafakort frá verslunarmiðstöðvum eins og Kringlunni, Smáralind eða Yay ehf. Á árunum 2019-2022 hafi ríkisstarfsmenn fengið slík gjafakort í jólagjöf frá vinnuveitanda, sbr. upplýsingar á opnirreikningar.is. Ákvæðum um gjafir í reglugerð nr. 245/1963 hafi verið ætlað að koma í veg fyrir að launagreiðslur yrðu færðar í búning gjafa. Skattmatsreglur séu ekki sjálfstæð skattlagningarheimild og breyting á þeim reglum, sem gerð hafi verið í skattmati fyrir tekjuárið 2023, geti ekki gilt fyrir eldri tekjuár. Þá verði allt að einu ekki séð að hið nýja ákvæði, sem kveði á um skattskyldu peningagjafa, hafi fullnægjandi lagastoð. Ennfremur verði gjafakort frá bönkum ekki lögð að jöfnu við peninga, enda fyrnist gjafakortin ólíkt peningagreiðslum. Með vísan til framanritaðs sé þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara sé gerð krafa um lækkun sem nemi staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars þar sem ekki sé unnt að líta á gjafir sem um ræðir sem laun eða endurgjald fyrir vinnu. Til stuðnings þrautavarakröfu um niðurfellingu álags sé vísað til þess að kærandi hafi haft réttmætar væntingar til þess að ekki bæri að halda eftir staðgreiðslu af jóla- og afmælisgjöfum til starfsmanna, sbr. sambærilegar gjafir frá ríkisstofnunum til starfsmanna sinna. Þá hafi framkvæmd ekki verið skýr. Ekkert tilefni sé því til beitingar álags.

IV.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Kemur fram að í skattmatsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2023 hafi verið bætt ákvæði til áréttingar og skýringar á því að peningagjafir séu ávallt skattskyldar. Kaupaukar og gjafir í peningum teljist ekki til tækifærisgjafa í skilningi 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 heldur séu ávallt skattskyldar tekjur burtséð frá formi, þ.e. án tillits til þess hvort gjöf sé veitt í beinhörðum peningum eða með innleggi á bankareikning eða afhendingu bankakorts. Þá sé varakröfu kæranda alfarið hafnað þar sem afhending bankakorta geti ekki fallið undir nein ákvæði í 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Beiting álags samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 sé lögbundin og leiði sjálfkrafa af þeim aðstæðum sem þar sé lýst. Lagaskilyrði séu því til beitingar álags í tilviki kæranda. Sé þess því krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 13. nóvember 2024, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra í málinu. Er vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 119/2024 þar sem ágreiningur hafi verið um gjöf launagreiðanda til starfsmanns í formi bankakorts. Úrskurðurinn sé skýr um að form gjafa leiði ekki til þess eitt og sér að gjöfin sé skattskyld. Bréfinu fylgja gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu, þ.e. afrit reikninga og málskostnaðaryfirlit.

V.

Í máli þessu er deilt um endurákvörðun ríkisskattstjóra á skilaskyldri staðgreiðslu kæranda, þar með talið staðgreiðslu tryggingagjalds, staðgreiðsluárin 2019, 2020, 2021 og 2022 auk álagsbeitingar vegna vangreiddrar staðgreiðslu, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 13. júní 2024. Taldi ríkisskattstjóri að kæranda bæri að standa skil á staðgreiðslu af starfstengdum hlunnindum starfsmanna félagsins umrædd ár sem fólgin voru í afhendingu gjafakorta til þeirra, þ.e. inneignarkorta í bönkum. Vísaði ríkisskattstjóri til þeirra skýringa kæranda í bréfi, dags. 25. janúar 2024, að einkum væri um að ræða jólagjafir til starfsmanna, en einnig gjafir til þeirra í tilefni afmæla eða starfsloka, og tók fram að beinar gjafir í peningum til starfsmanna bæri ávallt að telja til skattskyldra launatekna, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem væru staðgreiðsluskyldar eftir lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Yrðu slíkar peningagjafir ekki undir neinum kringumstæðum taldar til tækifærisgjafa í skilningi 4. tölul. A-liðar 7. gr. nefndra laga. Aðalkrafa kæranda um ógildingu ákvörðunar ríkisskattstjóra er einkum byggð á því að sú túlkun embættisins, að gjafir í peningum teljist ávallt til skattskyldra launatekna, eigi sér hvorki stoð í orðalagi fyrrgreindra lagaákvæða né skattframkvæmd. Er sérstaklega bent á að skattmatsreglum ríkisskattstjóra hafi verið breytt í upphafi árs 2023 í þá veru að taka sérstaklega fram um skattskyldu peningagjafa, þar með talið vegna afhendingar bankakorta, en sambærilegu ákvæði sé ekki til að dreifa í skattmötum vegna tekjuáranna 2019-2022. Þá er höfð uppi varakrafa sem lýtur að því að hækkun staðgreiðslu taki einungis til staðgreiðslu tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og þrautavarakrafa um niðurfellingu álags samkvæmt 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, „svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga teljast m.a. til skattskyldra tekna beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir. Samkvæmt 1. tölul. 50. gr. laga nr. 90/2003 er ekki heimilt að telja gjafir til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. laga þessara eða til frádráttar skattskyldum tekjum á einn eða annan hátt, „þó ekki tækifærisgjafir í fríðu til starfsmanna eða viðskiptavina þegar verðmæti þeirra er ekki meira en gerist um slíkar gjafir almennt“.

Síðastnefnt ákvæði var tekið upp með 5. gr. laga nr. 147/1994, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 147/1994, segir m.a.: „Með tækifærisgjöf í þessu sambandi er átt við jólagjafir til starfsmanna, gjöf í tilefni af stórafmæli starfsmanns eða meiri háttar starfsafmælis. Með orðalaginu að verðmæti gjafar skuli eigi vera meira en gerist um gjafir almennt eru í reynd sett ákveðin takmörk fyrir því hversu verðmæt gjöf má vera. Orðalagið gerir ráð fyrir því að lagður sé almennur hlutlægur mælikvarði á gjöfina sem þýðir að sami mælikvarði er lagður á allar gjafir burt séð frá umfangi starfsemi eða stöðu gjafþega í starfsemi gefanda. Gjöf sem undir þetta ákvæði mundi falla væri t.d. hefðbundin bók til jólagjafar. Sams konar mælikvarði á við um gjafir til viðskiptamanna.“

Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 21. gr. laga nr. 128/2009, skal ríkisskattstjóri, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2019, 2020, 2021 og 2022, sbr. auglýsingar nr. 1141/2018, 1223/2019, 1431/2020 og 1503/2021 í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. fjallað um framlög og gjafir. Er tekið fram í reglunum að telja beri slíkar gjafir til tekna eins og önnur gæði sem mönnum hlotnast sé verðmæti þeirra hærra en almennt gerist um tækifærisgjafir, sbr. lið 1 („Almennt um mat á hlunnindum“) í reglum þessum. Í skattmatsreglum ríkisskattstjóra tekjuárið 2023, sbr. auglýsingu nr. 1490/2022, er hins vegar tekið fram, sbr. lið 1, að peningagjafir launagreiðanda til starfsmanna teljist alltaf til skattskyldra tekna viðtakanda, „hvort sem gjöfin er í beinhörðum peningum, innleggi á bankareikninga eða afhendingu á bankakorti“, eins og þar segir.

Ákvæði um undanþágu svonefndra tækifærisgjafa frá skatti var upphaflega lögtekið með lögum nr. 6/1935, um tekjuskatt og eignarskatt, án þess að frekar væri skýrt í lögunum eða lögskýringargögnum hvers konar gjafir teldust til tækifærisgjafa í þessum skilningi. Eftir lögfestingu ákvæðis um frádráttarbærni slíkra gjafa til starfsmanna eða viðskiptavina með fyrrnefndum breytingalögum nr. 147/1994, sbr. nú 1. tölul. 50. gr. laga nr. 90/2003, nýtur hins vegar þeirra skýringa sem fram koma í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga, sbr. hér að framan, auk þess sem frádráttarheimildin tekur samkvæmt berum orðum sínum einvörðungu til tækifærisgjafa „í fríðu“. Að því gættu að ákvæði 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 hefur að geyma hina almennu reglu laganna um skattskyldu gjafa og ákvæði 1. tölul. 50. gr. laganna, sem er yngra að stofni til, varðar sérstaklega gjafir, þar með talið tækifærisgjafir, til starfsmanna verður að telja að skýra beri ákvæði þessi til samræmis þannig að beinar gjafir til starfsmanna í reiðufé geti ekki talist til tækifærisgjafa í skilningi þeirra. Ber og að hafa í huga í þessu sambandi að um undanþáguákvæði er að ræða sem almennt verður ekki skýrt rýmkandi lögskýringu auk þess sem umræddur skýringarkostur þykir fá stuðning af fyrrgreindum sjónarmiðum í frumvarpi til laga nr. 147/1994. Verður því ekki fallist á með kæranda að þessi túlkun ákvæðisins sé án lagastoðar.

Hin umdeildu útgjöld kæranda vegna gjafa til starfsmanna félagsins eru samkvæmt gögnum málsins fólgin í kaupum á gjafakortum hjá Arion banka hf., fyrst og fremst vegna jólagjafa til starfsfólks og í einhverjum tilvikum vegna afmæla eða starfsloka hlutaðeigandi starfsmanna, en gögn um þetta fylgdu bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 25. janúar 2024. Af hálfu ríkisskattstjóra er komið fram að um sé að ræða „inneignarkort“. Verður að ganga út frá því í málinu að kortin séu þeirrar náttúru að fást skipt fyrir reiðufé að sömu fjárhæð hjá útgefanda þeirra og verði því lögð að jöfnu við beinar fjárgreiðslur. Að því gættu verður að fallast á með ríkisskattstjóra að afhending korta þessara til starfsmanna kæranda teljist til skattskyldra tekna viðkomandi starfsmanna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Vegna tilvísunar í kæru til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 119/2024 í þessu sambandi skal tekið fram að ákvörðun ríkisskattstjóra í því máli var ekki byggð á því að hlutaðeigandi afmælisgjöf (gjafakort) yrði lögð að jöfnu við fjárgreiðslu til starfsmanns og gæti af þeim sökum ekki fallið undir undanþáguákvæði vegna tækifærisgjafa, eins og glöggt má ráða af forsendum úrskurðarins. Af úrskurði þessum verður því ekki dregin sú ályktun að gjafir til starfsmanna í því formi sem um ræðir teljist almennt til tækifærisgjafa að uppfylltum öðrum skilyrðum 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Með vísan til framanritaðs verður að hafna aðalkröfu kæranda í málinu.

Varakrafa kæranda í málinu lýtur að því að kæranda verði ekki gert að standa skil á staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars af starfstengdum hlunnindum starfsmanna vegna gjafa. Því til stuðnings er vísað til þess að sumar greiðslur séu undanþegnar staðgreiðslu, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, og að gjöfunum hafi aðeins verið ætlað að gleðja starfsmenn félagsins í tilefni jóla og afmæla.

Samkvæmt 1. gr. staðgreiðslulaga nr. 45/1987 er staðgreiðsla opinberra gjalda samkvæmt lögunum bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars launamanna á tekjuári og tryggingagjalds launagreiðenda á því ári nema annað sé tekið fram. Hugtakið launamaður er skilgreint í 4. gr. laganna og kemur m.a. fram í 1. tölul. þeirrar lagagreinar að til launamanns samkvæmt lögunum teljist maður sem fær endurgjald fyrir starfa sem hann innir af hendi á ábyrgð launagreiðanda. Í 5. gr. laga nr. 45/1987 er fjallað um hverjar greiðslur teljist til launa samkvæmt lögunum, sbr. ennfremur 6. gr. sem fjallar um reiknað endurgjald í staðgreiðslu. Samkvæmt 1. tölul. 5. gr. laganna telst til launa samkvæmt lögunum endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, dagpeningar, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til staðgreiðsluskyldra launa, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi.

Samkvæmt framansögðu eru lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, afdráttarlaus um að hvers konar starfstengd fríðindi og hlunnindi launamanna, svo og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki, teljist til staðgreiðsluskyldra launa í skilningi laga þessara, sbr. 1. tölul. 5. gr. þeirra. Verður því að telja að hlunnindi starfsmanna kæranda vegna gjafakorta sem málið varðar hafi verið staðgreiðsluskyld eftir lögum nr. 45/1987. Bar því að reikna staðgreiðslu af verðmæti gjafanna og standa skil á staðgreiðslufé til innheimtumanns samkvæmt 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 20. gr. laganna, sbr. 7. gr. sömu laga, enda verður ekki séð að nein ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, með síðari breytingum, geti tekið til þeirra. Með vísan til framangreinds verður að hafna varakröfu kæranda.

Eftir stendur þá umfjöllun um álagsbeitingu ríkisskattstjóra, en eins og fram er komið ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda álag á vanskilafé í staðgreiðslu samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Af hálfu kæranda er álagsbeitingu ríkisskattstjóra mótmælt. Kemur fram í kæru til yfirskattanefndar að kærandi hafi haft réttmætar væntingar um að afhending gjafakorta hafi ekki verið staðgreiðsluskyld, enda séu þess dæmi að opinberir aðilar hafi nýtt sambærileg kort til jólagjafa og framkvæmd óskýr.

Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi til viðbótar skilaskyldri staðgreiðslu samkvæmt lögunum ef greiðsla er eigi innt af hendi á tilskildum tíma. Samkvæmt 6. mgr. 28. gr. laganna má fella niður álag ef launagreiðandi færir gildar ástæður sér til afsökunar og skal ríkisskattstjóri meta það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Eins og hér framar er rakið er nú skýrlega mælt fyrir um það í skattmatsreglum ríkisskattstjóra að afhending vinnuveitanda á „bankakorti“ til starfsmanna teljist alltaf til skattskyldra tekna starfsmanns eins og hver önnur peningagjöf, sbr. skattmat fyrir tekjuárið 2023. Hliðstætt ákvæði var ekki að finna í skattmatsreglum fyrir tekjuárin 2019-2022 sem mál kæranda varðar. Þá verður ekki séð að sú túlkun á hugtakinu tækifærisgjöf í 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sem hér að framan hefur þó verið slegið fastri, hafi komið fram í öðrum leiðbeiningum eða verklagsreglum ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Af úrskurðum yfirskattanefndar má ráða að í skattframkvæmd hafi verið litið svo á að afhending gjafakorta með inneign til kaupa á ýmis konar vöru eða þjónustu fyrirtækja hafi verið talin geta fallið undir undanþágu vegna tækifærisgjafa til starfsmanna samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að fullnægðum öðrum skilyrðum, sbr. úrskurði yfirskattanefndar nr. 117 og 119/2024 sem þykja bera þetta með sér. Þegar þetta er virt má fallast á með kæranda að á þeim tíma sem málið varðar hafi verið álitamál hvernig standa bæri að staðgreiðsluskilum vegna afhendingar slíkra gjafakorta til starfsmanna. Með hliðsjón af framansögðu, fram komnum skýringum kæranda og þar sem því hefur ekki verið haldið fram að verðmæti gjafa kæranda til starfsmanna félagsins þau ár sem í málinu greinir hafi út af fyrir sig verið meira en almennt gerist um slíkar gjafir þykir mega taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags til greina, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Ríkisskattstjóri annast um gjaldabreytingar sem leiða af þeirri niðurstöðu, sbr. 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 8. gr. laga nr. 123/2014, um breyting á þeim lögum, og 1. gr. reglugerðar nr. 1146/2014, um gjaldabreytingar á grundvelli laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Kærandi hefur gert kröfu um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Samkvæmt úrslitum málsins þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 fellur niður. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja