Úrskurður yfirskattanefndar
- Áætlun skattstofna
- Framfærslueyrir
Úrskurður nr. 27/2001
Gjaldár 1999
Lög nr. 75/1981, 96. gr. 1. mgr.
Skattstjóri synjaði að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda sökum þess að framfærslueyrir væri neikvæður og skýringar kæranda í þeim efnum ekki fullnægjandi. Með kæru til yfirskattanefndar fylgdu yfirlýsingar B og móður kæranda um dvöl kæranda erlendis og fjárhagsaðstoð við hann. Yfirskattanefnd féllst á kröfu kæranda með hliðsjón af fram komnum skýringum og gögnum.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1999 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda barst skattstjóra 28. maí 1999 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess og var tekið sem kæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Áður en skattstjóri tók kæruna til úrlausnar reit hann kæranda bréf, dags. 25. nóvember 1999, þar sem hann óskaði meðal annars eftir skýringum kæranda á því að lífeyrir hans á árinu 1998 næmi aðeins 72.376 kr. er ekki fengi staðist, sbr. útreikning er fylgdi bréfinu. Í bréfi móður kæranda, dags. 17. desember 1999, kom fram að kærandi hefði dvalið endurgjaldslaust á heimili B erlendis á meðan kærandi hefði unnið að því að ná samningum við þarlend fyrirtæki. Þar sem kærandi hefði verið tekjulaus af þessum sökum hefði orðið að samkomulagi milli foreldra kæranda að veita honum aðstoð við greiðslu lána og opinberra gjalda.
Með kæruúrskurði, dags. 11. janúar 2000, hafnaði skattstjóri því að leggja skattframtal kæranda til grundvallar álagningu opinberra gjalda á kæranda árið 1999 með vísan til þess að fram komnar skýringar á lífeyri kæranda væru ekki fullnægjandi. Í þessu sambandi tók skattstjóri fram að „engar upphæðir [kæmu] fram um framangreinda aðstoð foreldra né frekari upplýsingar um dvöl [erlendis]“. Eftir atvikum taldi skattstjóri mega fallast á að lækka áætlun á tekjum kæranda í 700.000 kr. auk álags að fjárhæð 105.000 kr.
II.
Með kæru, dags. 9. apríl 2000, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Umboðsmaður kæranda gerir kröfu um að áætlun skattstjóra á skattstofnum kæranda verði felld úr gildi og innsent skattframtal hans árið 1999 verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda það ár. Kærunni fylgir annars vegar yfirlýsing B, dags. 1. mars 2000, og hins vegar yfirlýsing móður kæranda og C. Í fyrri yfirlýsingunni, dags. 1. mars 2000, segir meðal annars svo:
„Frá seinni hluta árs 1997 til loka árs 1999 hefur … dvalið sem gestur á heimili okkar hjóna hér í … þar sem … hefur oft dvalið langtímum hér í landi á þessu tímabili til að kanna möguleika á frekari þróun á sínum ferli […].
Það hefur verið sönn ánægja okkar að hafa getað stutt … á þessum tíma og … mun alltaf vera velkominn sem okkar gestur á okkar heimili.“
Í síðari yfirlýsingunni, dags. 9. apríl 2000, segir meðal annars svo:
„Við bæði og faðir … ákváðum að sameinast um að greiða fyrir hann afborganir af lánum og skuld vegna opinberra gjalda þar sem annars hefði honum ekki verið kleift að reyna fyrir sér erlendis.
Foreldrar halda almennt ekki nákvæmt bókhald um fjárhagslegan stuðning við börn sín meðan þau eru í námi eða að leggja grundvöll að ævistarfi sínu og halda því síður saman kostnaði vegna fæðis. Það er hins vegar ljóst að fjárhagslegur stuðningur okkar við … árið 1998 hefur vart verið undir 60-70 þús. kr. á mánuði, ef allt er talið, en jafnframt naut hann að nokkru leyti stuðnings föður síns.“
Með bréfi, dags. 7. júlí 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa framlögð gögn varðandi kæruefnið ekki gefið fullnægjandi mynd af því hvernig fjárstuðningi foreldra og annarra við kæranda var háttað.“
III.
Skattstjóri hafnaði því að leggja skattframtal kæranda árið 1999 til grundvallar álagningu opinberra gjalda með vísan til þess að kærandi hefði ekki gefið fullnægjandi skýringar á lífeyri sínum. Bar skattstjóri því við sérstaklega að engar fjárhæðir hefðu komið fram varðandi tilgreinda aðstoð foreldra og frekari upplýsingar um dvöl kæranda erlendis hefðu ekki verið gefnar. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi notið aðstoðar bæði B og foreldra sinna. Í yfirlýsingu móður kæranda og sambýlismanns hennar kemur fram að fjárhagslegur stuðningur þeirra við kæranda hafi vart numið lægri fjárhæð en 60-70 þúsund krónum á mánuði. Jafnframt hafi kærandi notið aðstoðar föður síns. Þá liggur fyrir yfirlýsing um dvöl kæranda erlendis, sbr. staðfestingu B og D, dags. 1. mars 2000.
Samkvæmt framansögðu hafa verið gefnar skýringar og lögð fram gögn varðandi framfærslueyri kæranda á tekjuárinu 1998 með sérstöku tilliti til þeirra atriða sem skattstjóri bar við og byggði á þegar hann hafnaði innsendu skattframtali kæranda. Í kröfugerð sinni, dags. 7. júlí 2000, vefengir ríkisskattstjóri út af fyrir sig ekki framkomnar skýringar og gögn, en telur þau ekki gefa fullnægjandi mynd af fjárstuðningi vandamanna og annarra við kæranda, án þess þó að gera nánari grein fyrir þessari afstöðu sinni. Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum og eins og málið liggur fyrir samkvæmt því, sem að framan greinir, þykir mega fallast á kröfu kæranda. Verður skattframtal kæranda því lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1999 að gerðum eftirfarandi breytingum: Launatekjur 45.000 kr. frá K eru færðar til tekna í reit 21, sbr. svar, dags. 17. desember 1999, við bréfi skattstjóra, dags. 25. nóvember 1999. Á grundvelli upplýsinga í greinargerð um sölu hlutabréfa (RSK 3.09) er tekjufærsla söluhagnaðar af hlutabréfum 44.591 kr. í reit 164 felld niður ásamt eignfærslu hlutabréfaeignar í S hf. 7.214 kr. í lið 3.6 í skattframtali. Skuld við Sparisjóð Kópavogs 109.829 kr. er færð úr eignum í lið 3.1 í skuldir í lið 5.5 í skattframtali. Álag vegna síðbúinna framtalsskila, sem ómótmælt er, lækkar úr 15% í 10% á skattstofna, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.