Úrskurður yfirskattanefndar
- Almannaheillaskrá
Úrskurður nr. 115/2025
Lög nr. 90/2003, 4. gr. 9. tölul. (brl. nr. 32/2021, 1. gr., sbr. brl. nr. 133/2021, 1. gr.) Reglugerð nr. 1300/2021, 18. gr.
Ákvörðun ríkisskattstjóra um að fella kæranda af almannaheillaskrá með því að kærandi hefði ekki sótt um endurskráningu innan tilskilinna tímamarka var staðfest með úrskurði yfirskattanefndar þar sem talið var á ábyrgð kæranda sjálfs að þannig atvikaðist. Umsókn kæranda um skráningu að nýju var send ríkisskattstjóra til meðferðar og afgreiðslu.
Ár 2025, miðvikudaginn 3. september, er tekið fyrir mál nr. 91/2025; kæra A, dags. 8. apríl 2025, vegna skráningar í almannaheillaskrá. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun ríkisskattstjóra frá 14. mars 2025 að fella niður skráningu kæranda í almannaheillaskrá, sbr. ákvæði 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum.
Málavextir eru þeir að með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 20. febrúar 2025, var athygli kæranda vakin á því að ekki hefði verið endurnýjuð skráning í almannaheillaskrá Skattsins. Í bréfinu kom fram að kærandi hefði verið skráður í almannaheillaskrá, en að skráninguna þyrfti að endurnýja árlega fyrir hvert byrjað almanaksár eigi síðar en 15. febrúar ár hvert, sbr. 9. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Samkvæmt athugun ríkisskattstjóra hefði kærandi ekki endurnýjað skráningu í samræmi við það. Ef vilji stæði til þess að kærandi væri áfram á skránni árið 2025 þyrfti að endurnýja skráninguna, en hægt væri að endurnýja í gegnum þjónustusíðu Skattsins. Veittur var 15 daga frestur til að bæta úr framangreindu. Tekið var fram í bréfinu að bærust ekki fullnægjandi skýringar eða úrbætur skyldi ríkisskattstjóri úrskurða kæranda af almannaheillaskrá, sbr. lokamálslið 14. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1300/2021. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 14. mars 2025, var kærandi skráður af almannaheillaskrá með vísan til þess að engin svör hefðu borist við framangreindu bréfi, dags. 20. febrúar 2025, né hefði kærandi endurnýjað skráningu sína.
Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 8. apríl 2025, er þess krafist að kærandi verði skráður á ný í almannaheillaskrá Skattsins. Í kærunni kemur fram að láðst hafi að endurnýja skráningu kæranda í almannaheillaskrá þar sem ábyrgðaraðili kæranda hafi ekki verið meðvitaður um að tilkynningar vegna kæranda bærust eingöngu í gegnum þjónustuvef Skattsins fyrir lögaðila „frekar en í gegnum appið“, eins og þar segir. Þegar ábyrgðaraðili hafi áttað sig á því að hann þyrfti að skrá sig inn á sérstakan aðgang kæranda í gegnum heimasíðu Skattsins og skoða tilkynningar þar hafi verið of seint að bregðast við innan gefins frests. Sé þess því óskað að kærandi verði skráður á ný á almannaheillaskrá.
II.
Með bréfi, dags. 20. maí 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Frá áramótum 2024/2025 séu bréf Skattsins til skattaðila birt í stafrænu pósthólfi skattaðila á island.is í samræmi við ákvæði 6. og 7. gr. laga nr. 105/2021. Miðist réttaráhrif við þá birtingu. Þegar í kjölfar samþykktar upphaflegrar umsóknar kirkjunnar hafi verið sendur tölvupóstur þar sem vakin hafi verið athygli á ýmsum atriðum varðandi skráningu í almannaheillaskrá, þar með talið nauðsyn endurskráningar fyrir 15. febrúar ár hvert. Þá hafi endurskráning kæranda í almannaheillaskrá Skattsins fyrir árið 2023 farið fram 7. febrúar 2023 og 14. febrúar 2024 vegna ársins 2024.
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. maí 2025, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
III.
Ákvæði um skráningu lögaðila í svonefnda almannaheillaskrá voru tekin upp í lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, með I. kafla laga nr. 32/2021, um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla). Öðluðust ákvæði þessi gildi 1. nóvember 2021, sbr. 12. gr. laga nr. 32/2021. Samkvæmt 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðar eftir breytingar með 1. gr. laga nr. 32/2021 og 1. gr. laga nr. 133/2021, eru þeir lögaðilar sem um ræðir í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 5. tölul. 4. gr. sömu laga, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir a-g-lið 2. mgr. 4. tölul. og eru skráðir í sérstaka almannaheillaskrá hjá Skattinum undanþegnir tekjuskatti. Er tekið fram að ákvæði II.-VI. og VIII. kafla laga nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, gildi um lögaðila eftir því sem við á vegna skráningar og hæfis lögaðila í almannaheillaskrá Skattsins. Þá er það skilyrði fyrir skráningu og endurskráningu lögaðila í almannaheillaskrá að staðin hafi verið skil á skattframtali og ársreikningi til ríkisskattstjóra eftir því sem við á og að ekki sé um að ræða vanskil eða áætlanir skatta, skattsekta, gjalda og skýrsluskila, sbr. 3. málsl. 9. tölul. 4. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 133/2021.
Í reglugerð nr. 1300/2021, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, eru frekari ákvæði um skráningu og endurskráningu lögaðila í almannaheillaskrá. Að því er snertir endurskráningu kemur fram í 9. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar að endurnýja skuli skráningu í almannaheillaskrá árlega fyrir hvert byrjað almanaksár eigi síðar en 15. febrúar ár hvert. Endurskráning gildi frá byrjun viðkomandi almanaksárs og til loka þess almanaksárs að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins að öðru leyti. Í 11. mgr. 18. gr. segir að berist umsókn um endurskráningu eftir þau tímamörk sem fram koma í 9. mgr. skuli slík umsókn tekin sem frumskráning á almannaheillaskrá. Uppfylla þarf þau skilyrði sem gilda um frumskráningu. Er tekið fram í ákvæðinu að umsókn gildi frá og með umsóknardegi þess almanaksárs þegar umsókn berst Skattinum og heimilist frádráttur vegna gjafa og framlaga sem berast móttakanda frá og með umsóknardegi. Samkvæmt a-lið 13. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1300/2021 fellur lögaðili af almannaheillaskrá eftir frumskráningu hafi endurskráning ekki farið fram innan tilskilins frests.
Með hinni kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra frá 14. mars 2025 var skráning kæranda á almannaheillaskrá felld niður með því að kærandi hefði ekki sótt um endurskráningu innan tilskilinna tímamarka samkvæmt 9. mgr. 18. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 1300/2021, enda hefði kærandi ekki brugðist við bréfi ríkisskattstjóra, dags. 20. febrúar 2025, þar sem athygli kæranda var vakin á því að endurnýja þyrfti skráningu á almannaheillaskrá. Er þetta út af fyrir sig óumdeilt í málinu, en í kæru til yfirskattanefndar er gerð grein fyrir ástæðum þess að þannig fór. Var ríkisskattstjóra því rétt að hlutast til um niðurfellingu skráningar kæranda, sbr. fyrrgreind ákvæði. Eru því ekki efni til annars en að staðfesta hina kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra, enda verður að telja á ábyrgð kæranda sjálfs að þannig atvikaðist. Á hinn bóginn verður að líta svo á að í kæru kæranda til yfirskattanefndar felist ný umsókn til ríkisskattstjóra um skráningu í almannaheillaskrá (frumskráningu), sbr. fyrrgreint ákvæði 11. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1300/2021. Ríkisskattstjóri hefur ekki tekið neina afstöðu til þess erindis, enda lét kærandi málið ekki til sín taka við meðferð þess hjá embættinu. Að svo vöxnu þykir bera að framsenda ríkisskattstjóra erindi kæranda til afgreiðslu á þessum grundvelli.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Ákvörðun ríkisskattstjóra um afskráningu kæranda af almannaheillaskrá stendur óhögguð. Umsókn kæranda um skráningu að nýju er send ríkisskattstjóra til meðferðar og afgreiðslu.