Úrskurður yfirskattanefndar
- Kílómetragjald
- Undanþága frá greiðslu
Úrskurður nr. 185/2025
Lög nr. 101/2023, 5. gr. 1. mgr. 1. tölul., 8. gr. 2. mgr.
Kröfu kæranda í máli þessu um undanþágu frá greiðslu kílómetragjalds vegna tímabundins flutnings bifreiðar úr landi var hafnað þar sem þess var ekki gætt af hálfu kæranda að skrá með rafrænum hætti stöðu akstursmælis bifreiðarinnar við brottför frá landinu.
Ár 2025, miðvikudaginn 10. desember, er tekið fyrir mál nr. 149/2025; kæra A, dags. 15. september 2025, vegna álagningar kílómetragjalds árin 2024 og 2025. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Gerður Guðmundsdóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Með kæru, dags. 15. september 2025, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 9. júlí 2025, vegna kílómetragjalds af ökutækinu R á tímabilinu 25. september 2024 til 14. maí 2025. Með úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um niðurfellingu kílómetragjalds af ökutækinu, sbr. lög nr. 101/2023, um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, vegna tímabundins flutnings þess úr landi á árinu 2024. Vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. nefndra laga og tók fram að kílómetrastaða ökutækisins hefði ekki verið skráð við brottför frá landinu, svo sem áskilið væri í ákvæðinu, heldur þann 15. maí 2025 eða degi eftir komu til landsins. Skilyrði fyrir niðurfellingu kílómetragjalds væru því ekki uppfyllt í tilviki kæranda.
Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að við flutning ökutækisins R úr landi 25. september 2024 hafi staða akstursmælis verið 45.805 km. Við flutning ökutækisins til landsins 14. maí 2025 hafi staða akstursmælis verið 61.143 km. Ríkisskattstjóra hafi verið tilkynnt um þetta 15. maí 2025 auk þess sem lögð hafi verið fram bókunarstaðfesting frá Smyril Line vegna ferðar frá Seyðisfirði til Hirtshals í Danmörku. Kærandi hafi haft sama hátt á við tímabundinn flutning ökutækis til útlanda á árinu 2023 og þá hafi kílómetragjald verið fellt niður. Sé því gerð sú krafa að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Með kærunni fylgir bókunarstaðfesting Smyril Line, dags. 10. september 2024, og ljósmyndir af akstursmæli.
II.
Með bréfi, dags. 10. október 2025, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni er tekið fram, vegna athugasemda í kæru um tímabundinn flutning bifreiðar til útlanda á árinu 2023, að ríkisskattstjóri hafi fallist á niðurfellingu kílómetragjalds með úrskurði, dags. 27. ágúst 2024, vegna tímabilsins 1. janúar 2024 til 23. apríl sama ár þar sem sýnt hafi verið fram á það með gögnum frá Smyril Line að bifreiðin hafi verið stödd erlendis við gildistöku laga nr. 101/2023. Skráning á stöðu akstursmælis bifreiðarinnar hafi þá verið skráð 11. janúar 2024 og svo aftur við heimkomu í apríl 2024. Skilyrði undanþágu frá greiðslu kílómetragjalds samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 101/2023 hafi þannig verið talin uppfyllt. Það sé álit ríkisskattstjóra að hinn kærði úrskurður skuli staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Með tölvupósti til yfirskattanefndar hinn 17. október 2025 hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra. Kemur fram að ljósmyndir af akstursmæli bifreiðarinnar hafi verið teknar við skipshlið ferjunnar, þ.e. áður en lagt var af stað til útlanda og við heimkomu, eins og dagsetningar ljósmyndanna beri með sér.
III.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 101/2023, um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, skal greiða til ríkissjóðs kílómetragjald af akstri bifreiða eins og nánar er ákveðið í lögunum. Um gjaldskyldar bifreiðar er fjallað í 2. gr. laganna og um gjaldskylda aðila í 3. gr. þeirra. Í 4. gr. laganna eru taldar bifreiðar sem eru undanþegnar gjaldskyldu og í 5. gr. eru ákvæði um undanþágur frá greiðslu kílómetragjalds. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. síðastnefndrar lagagreinar ber ekki að greiða kílómetragjald af bifreiðum sem hafa verið fluttar tímabundið úr landi. Er tekið fram að skilyrði fyrir undanþágunni sé að eigandi eða umráðamaður skrái stöðu akstursmælis bifreiðar, sbr. 8. gr. laganna, við brottför frá landinu og við komu til landsins ásamt því að tilgreina að um tímabundinn flutning úr landi sé að ræða. Einnig beri að framvísa staðfestingu til sönnunar á tímabundnum útflutningi á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Í 8. gr. laga nr. 101/2023 kemur fram um skráningu á stöðu akstursmælis gjaldskyldrar bifreiðar að skráningin skuli fara fram rafrænt að lágmarki einu sinni á hverju almanaksári, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Skráningin skuli framkvæmd af gjaldskyldum aðila eða hjá faggiltri skoðunarstofu, svo sem nánar greinir. Slík skráning skuli vera grundvöllur að álagningu kílómetragjalds samkvæmt 10. gr. laganna.
Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 101/2023, kemur fram um undanþágu frá greiðsluskyldu kílómetragjalds vegna tímabundins útflutnings bifreiðar að það skilyrði skuli vera uppfyllt að gjaldskyldur aðili skrái sjálfur stöðu akstursmælis bifreiðar bæði við brottför frá landinu og komu til landsins eða hjá faggiltri skoðunarstofu. Þá segir í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins að skráning á stöðu akstursmælis skuli fara fram rafrænt, til að mynda með skráningu í smáforriti eða á vefsetrinu Ísland.is í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda (Þskj. 574 á 154. löggjafarþingi 2023-2024).
Samkvæmt framansögðu er það fortakslaust skilyrði fyrir undanþágu frá greiðslu kílómetragjalds af bifreið, sem flutt hefur verið tímabundið úr landi, að eigandi eða umráðamaður skrái stöðu akstursmælis bifreiðar bæði við brottför frá landinu og við komu til landsins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 101/2023. Verður jafnframt að skýra ákvæðið til samræmis við ákvæði 8. gr. sömu laga þannig að vísað sé til rafrænnar skráningar á stöðu akstursmælis, sbr. og fyrrgreindar athugasemdir með frumvarpi til laganna. Fyrir liggur að þessa var ekki gætt af hálfu kæranda við flutning bifreiðarinnar R til útlanda þann 25. september 2025. Þá verður ekki séð að ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga þessara, sem girðir fyrir rafræna skráningu eiganda á stöðu akstursmælis innan 30 daga frá síðustu skráningu mælisins, hafi torveldað skráningu í tilviki kæranda, en fram kemur í ákvörðun ríkisskattstjóra að síðasta skráning á stöðu mælis bifreiðarinnar fyrir flutning hennar til útlanda hafi átt sér stað 23. apríl 2024. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.
