Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 434/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður 3. mgr., 95. gr. 1. mgr., 96. gr. 1. og 3. mgr.  

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður vaxtagjöld 402.585 kr. í reit 87 í skattframtali kæranda árið 1991 á þeim forsendum að vaxtagjöldin væru ekki vegna lána til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. bréf skattstjóra, dags. 25. júlí 1991, og kæruúrskurð hans, dags. 11. nóvember 1991. Skattstjóri byggði á því að samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Íslands hefði kærandi átt lögheimili að A hinn 1. desember 1990 og hefði átt frá árinu 1985. Eigið húsnæði kæranda væri að B. Með tilliti til þessa þætti ljóst að vaxtagjöld samkvæmt framtali kæranda uppfylltu ekki skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, varðandi eigin not íbúðarhúsnæðis.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 3. desember 1991, krafðist kærandi þess að honum yrði ákvarðaðar vaxtabætur. Kærandi greinir frá því að hann hafi fest kaup á íbúðarhúsnæði að B haustið 1989, er afhent hafi verið haustið 1990. Láðst hafi að tilkynna breytingar á lögheimili í tæka tíð fyrir 1. desember 1990 og kærandi því talinn til heimilis að A löngu eftir flutning þaðan. Rétt er að fram komi að í kæru til skattstjóra, dags. 1. ágúst 1991, bar kærandi fyrir sig flutningsskyldur sínar sem starfsmaður X. Með kæru fylgdi vottorð Manntalsskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 7. ágúst 1991, um búsetu kæranda að B.

Með bréfi, dags. 20. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Vottorð það sem kærandi leggur fram frá Manntalsskrifstofu Reykjavíkur varpar engu ljósi á hvar kærandi bjó á árinu 1990. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá flutti kærandi frá A að B hinn 1. janúar 1991.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Telja verður að rétt hefði verið að fara með breytinguna eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga enda lágu ekki óyggjandi upplýsingar fyrir skattstjóra um ágreiningsefnið. Þegar litið er til skýringa kæranda og gagna málsins verður að telja að kærandi hafi sýnt nægilega fram á að hann uppfylli skilyrði lokamálsliðs 1. tl. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þannig að honum beri réttur til vaxtabóta gjaldárið 1991. Greinargerð kæranda um vaxtagjöld hefur enga umfjöllun fengið á skattstjórastigi. Ljóst þykir þó að kærandi á rétt á hámarki vaxtabóta gjaldárið 1991.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Vaxtabætur gjaldárið 1991 ákvarðast 122.765 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja