Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 320/1987

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 96. gr. og 97. gr.  

Sambýlisfólk — Endurákvörðun skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan

I

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 11. mars 1986, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1985 hefðu verið endurákvörðuð með vísan til bréfs skattstjóra, dags. 2. desember 1985. Af kæranda hálfu hefðu ekki komið fram mótmæli við síðastnefndu bréfi og kæmu því boðaðar breytingar til framkvæmda. Breytingamar hefðu lotið að því, að ranglega hefði verið lagt á kæranda og sambýliskonu hans, H., sem hjón við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 og væri það nú leiðrétt. Þá hefði álagning á tekjur hennar fallið niður. Við þessar breytingar félli niður millifærður persónuafsláttur frá maka svo og hækkun á 20% skattþrepi. Hækkuðu gjöld í samræmi við þetta.

II

Af hálfu kæranda var þessum breytingum mótmælt með kæru, dags. 5. apríl 1986. Bar kærandi fyrir sig, að breytingamar hefðu ekki verið boðaðar honum, enda hefði hann ekki fengið það bréf, sem skattstjóri vísaði til. Með kæruúrskurði, dags. 28. júlí 1986, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Honum hefði með almennu bréfi, dags. 2. desember 1985, verið um það tilkynnt, að skattstjóri hygðist endurákvarða áður álögð opinber gjöld hans gjaldárið 1985 og honum gefinn 10 daga frestur til andsvara. Þá vísaði skattstjóri til 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi heimild til endurákvörðunar.

III

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. ágúst 1986. Er þess krafist, að breytingum skattstjóra verði hrundið. Er byggt á því, að bréf skattstjóra, dags. 2. desember 1985, hafi ekki borist kæranda. Um þetta hafi verið spurst á skattstofu, en þar séu engar staðfestingar finnanlegar um að slíkt bréf hafi verið sent, en talið líklegt, að slíkt bréf hafi verið fyrirhugað. í fórum skattstofu hafi eitthvað fundist, er líktist uppkasti að bréfi (handskrifað), en það hafi aldrei borist kæranda. Þá er sjónarmið kæranda það, að hann verði ekki látinn bera ábyrgð á hugsanlegum álagningarmistökum skattstjóra, þar sem hann hafi talið fram rétt og skilmerkilega. Í bréfinu kemur ennfremur fram, að kærandi og sambýliskona hans telji fram hvort í sínu lagi og hafi ávallt hagað framtölum svo.

IV

Með bréfi, dags. 2. apríl 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

V

Eigi voru hendur skattstjóra bundnar til endurákvörðunar áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1985 svo sem kærandi virðist halda fram, sbr. 96. gr. og 2. mgr. 97. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en hin kærða endurákvörðun fór fram hinn 11. mars 1986. Kærandi hefur eindregið staðhæft, að honum hafi eigi borist bréf skattstjóra, dags. 2. desember 1985. í málinu liggur einungis fyrir ljósrit af handriti bréfs þessa. Þykir þetta styðja fullyrðingu kæranda jafnframt því að engar frekari líkur en fyrrnefnt gagn eru leiddar að því, hvorki af hálfu skattstjóra né ríkisskattstjóra, að bréf þetta hafi verið sent. Að svo vöxnu þykir eigi verða hjá því komist að fella hinar kærðu breytingar úr gildi, sbr. 2. — 4. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja