Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Búslóð

Úrskurður nr. 97/2016

Lög nr. 88/2005, 6. gr. 1. mgr. 4. tölul.   Reglugerð nr. 630/2008, 16. gr. 1. mgr. 1. og 4. tölul.  

Fallist var á með tollstjóra að ekki væri uppfyllt það skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar í tilviki kærenda að þau hefðu haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins á árinu 2015, enda lá fyrir að kærendur voru bæði búsett hér á landi á tímabilinu frá janúar til september 2014 og raunar bæði með skráð lögheimili hér á landi frá árinu 2010.

Ár 2016, miðvikudaginn 11. maí, er tekið fyrir mál nr. 195/2015; kæra A og B, dags. 30. september 2015, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 30. september 2015, varðar kæruúrskurð tollstjóra, dags. 21. ágúst 2015, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings búslóðar. Er þess krafist í kærunni að ákvörðun tollstjóra verði hnekkt og viðurkennt verði að innflutningur búslóðar kærenda sé tollfrjáls á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. ákvæði II. kafla reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með tölvupósti til tollstjóra, dags. 10. mars 2015, óskuðu kærendur eftir því að þeim yrði veitt undanþága samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, til að flytja inn búslóð sína frá Svíþjóð tollfrjálst. Í tölvupóstinum kom fram að kærendur hefðu flutt til Svíþjóðar vorið 2009 og skráð lögheimili sitt þar í landi. Kærendur hefðu þó aftur skráð lögheimili sitt á Íslandi sumarið 2010 vegna óþæginda, meðal annars með póst. Aðalheimili þeirra hefði þó engu að síður verið í Svíþjóð. Kærandi, A, hefði verið meiri hluta ársins í Svíþjóð og unnið þar lítilsháttar utan heimilis en kærandi, B, verið meira en hún á Íslandi.

Með bréfi, dags. 16. mars 2015, hafnaði tollstjóri beiðni kærenda þar sem of langt væri liðið frá því að kærendur hefðu flutt lögheimili sitt til landsins til þess að veita mætti undanþágu frá því skilyrði 4. tölul. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 að viðkomandi hefði búslóðina með sér er hann flytti búferlum til landsins eða flytti hana til landsins eigi síðar en innan sex mánaða frá því hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlaðist hér lögheimili. Hefði tollstjóri túlkað undanþáguheimild ákvæðisins þannig að hún næði aðeins til nokkurra missera.

Með bréfi, dags. 23. apríl 2015, óskuðu kærendur eftir því að tollstjóri tæki ákvörðun sína til endurskoðunar. Í bréfinu vísuðu kærendur til 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 varðandi tollfrelsi búslóða og tóku fram að takmarkanir ákvæðisins virtust beinast að því að afmarka tollfrelsi við búslóðir sem væru að umfangi og verðmæti í samræmi við fjölskyldustærð og dvalartíma erlendis. Umrædd búslóð væri mjög hófleg og hefði að talsverðum hluta verið flutt frá Íslandi til Svíþjóðar árið 2009. Hinn hlutinn væri fyrst og fremst hlutir keyptir í Svíþjóð á fyrstu árum búsetu þar. Væri því löngu búið að greiða af þeim gjöld og virðisaukaskatt og engar forsendur til þess að fá þau gjöld felld niður eins og um hefðbundinn vöruútflutning frá Svíþjóð væri að ræða. Aðalheimili kærenda hefði verið í Svíþjóð á liðnum árum. Hefðu þau leigt út hús sitt á Íslandi eins og skattskýrslur og þinglýstir leigusamningar sýndu og haldið hús hjá ættingjum þegar þau voru á Íslandi. Um búsetu þeirra á Íslandi gætu bæði myndir og fjöldi fólks vitnað. Nyti búslóðin ekki tollfrelsis eftir nokkurra ára búsetu erlendis væri um mismunun og tvísköttun að ræða.

Tollstjóri tók erindi kærenda til meðferðar sem kæru, sbr. 1. mgr. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, og með tölvupósti til kærenda, dags. 26. maí 2015, óskaði tollstjóri eftir gögnum sem sýndu fram á samfellda búsetu kærenda í Svíþjóð a.m.k. síðastliðið ár og vísaði til fyrrgreinds reglugerðarákvæðis. Í tölvupósti kærenda til tollstjóra, dags. 23. júní 2015, kom fram að á tímabilinu janúar 2009 til júní 2015 hefði kærandi, A, verið á Íslandi í nokkrar vikur á sumrin og aftur í kringum jól eða áramót auk annarra tilfallandi tímabila. Í desember 2013 hefði kærandi farið til Íslands þegar tengdadóttir hennar hefði verið komin í fæðingarorlof og hefði kærandi lítið verið í Svíþjóð fyrr en í september 2014 þegar hún hefði tekið við barnagæslu af dóttur sinni. Staðið hefði til að kærandi aðstoðaði með barnið þar til það byrjaði á leikskóla í ágústmánuði 2015 og hefði því ekkert verið hugað að búferlaflutningum fyrr en síðastliðinn vetur. Kærandi hefði hins vegar slitið hásin 18. maí 2015 og komið aftur til Íslands viku síðar. Gæfi yfirlit yfir bankareikning kæranda í Svíþjóð grófa mynd af þessari búsetu og að kærandi hefði fengið greidd laun frá sveitarfélagi fyrir íslenskukennslu. Kærandi hefði auk þess fengið laun fyrir blaðburð árið 2013. Tölvupóstinum fylgdu tvö yfirlit yfir bankareikning kæranda í Svíþjóð, annað fyrir tímabilið 27. janúar 2007 til loka ársins 2013 en hitt fyrir tímabilið 1. janúar 2014 til 22. júní 2015. Þá fylgdu tölvupóstinum húsaleigusamningar vegna útleigu á K árin 2009, 2010, 2012, 2013 og 2014. Loks fylgdu tölvupóstinum ljósmyndir af innbúi kærenda.

Með kæruúrskurði, dags. 21. ágúst 2015, hafnaði tollstjóri kröfu kærenda. Í úrskurði tollstjóra kom fram að í ákvæðum 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 fælust undantekningar frá þeirri meginreglu sem fram kæmi í 3. gr., sbr. einnig 5. gr. laganna, að greiða skyldi aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar væru til landsins. Í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna kæmi fram að búslóðir þeirra sem flyttust búferlum hingað til lands væru tollfrjálsar, enda hefði viðkomandi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. eitt ár áður en flutt hefði verið til landsins. Þá vísaði tollstjóri til 1. tölul. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 þar sem fram kæmi sú krafa að innflytjandi hefði haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár frá búferlaflutningum til landsins. Væri um að ræða undanþáguákvæði sem bæri að túlka þröngt. Því næst rakti tollstjóri búsetubreytingar kæranda, A, á undanförnum árum samkvæmt frásögn í kæru og tók fram að þar sem kærandi hefði aðeins verið búsett í um það bil níu mánuði í Svíþjóð á næstliðnu ári þegar hún flutti til landsins í maí árið 2015 teldist hún ekki uppfylla skilyrði 1. tölul. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Væri kröfu kærenda því hafnað.

III.

Í kæru kærenda til yfirskattanefndar, dags. 30. september 2015, er þess krafist að yfirskattanefnd endurskoði ákvörðun tollstjóra varðandi tollfrelsi búslóðar kærenda. Er tekið fram í kærunni að hafnað sé þeirri túlkun tollstjóra að tímasetja búferlaflutning kærenda í maí 2015 frekar en t.d. haustið 2013. Sé því farið fram á að yfirskattanefnd endurskoði úrskurð tollstjóra.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2015, lagði tollstjóri fram umsögn í málinu. Í umsögn tollstjóra er þess krafist að úrskurður embættisins verði staðfestur. Fram kemur að tollstjóri tímasetji búferlaflutninga kærenda í maí 2015 þar sem kærandi, A, hafi þá snúið aftur til landsins til að setjast hér að. Fyrir liggi að A hafi dvalið meira í Svíþjóð en B og að málatilbúnaður kærenda við meðferð málsins hafi byggst á dvalartíma A.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. nóvember 2015, var kærendum send umsögn tollstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 26. nóvember 2015, hafa kærendur gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kemur fram að kærendur hafi keypt húsnæði á Íslandi 3. október 2013 og þá flutt lögheimili sitt þangað, en áður hafi lögheimili þeirra verið skráð hjá bróður kæranda, A. Hafi A síðan dvalist í Svíþjóð í nóvember á meðan B hafi unnið að endurbótum nýja hússins og svo komið til Svíþjóðar í nokkra daga. Bæði hafi þau síðan flogið til Íslands 4. desember. Ef nákvæmur búferlaflutningur eigi að ráða úrslitum í málinu megi nefna 5. október eða 4. desember 2013. Barnagæsludvöl A frá september 2014 til maí 2015 og vitneskja um hana skýri hvers vegna kærendur hafi ákveðið haustið 2013 að bíða með búslóðarflutning þar til dvölinni lauk. Ekki sé sjálfgefið að fólk flytji allt sitt hafurtask í einu og margvíslegar útgáfur sambúðar og heimilishalds tíðkist á dögum nútímasamgangna, meira að segja á milli landa.

IV.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kærenda á búslóð á árinu 2015, sbr. kæruúrskurð tollstjóra, dags. 21. ágúst 2015. Hafnaði tollstjóri því að búslóðin væri tollfrjáls á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 þar sem ekki væri uppfyllt það skilyrði ákvæðisins að innflytjandi hefði haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins, sbr. ennfremur ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er hver sá tollskyldur sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. þó 4. gr. laganna um takmarkaða tollskyldu aðila sem þar eru tilgreindir. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skal greiða toll af þeim vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins en í 6. gr. laganna er mælt fyrir um vissar vörur sem skuli vera tollfrjálsar. Kemur þar fram í 4. tölul. 1. mgr. að búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands skuli vera tollfrjáls, enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Kemur fram í ákvæðinu að ráðherra geti með reglugerð takmarkað niðurfellingu samkvæmt þessum lið meðal annars við notkun, vöruflokka eða hámarksverð að teknu tilliti til dvalartíma erlendis, fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna. Í 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, er nánar kveðið á um almenn skilyrði tollfrelsis búslóða. Samkvæmt 1. tölul. 16. gr. reglugerðarinnar þarf innflytjandi að hafa haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins.

Óumdeilt er í málinu að kærendur fluttu til Svíþjóðar á árinu 2009. Samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá fluttu kærendur aftur til Íslands sumarið 2010, en af þeirra hálfu er komið fram að sú skráning eigi ekki við rök að styðjast að því er snertir kæranda, A, sem hafi búið áfram í Svíþjóð, haldið þar heimili og stundað launaða vinnu. Í tölvupósti til tollstjóra þann 23. júní 2015 kom hins vegar fram að kærandi, A, hefði komið til Íslands í desember 2013 og að mestu dvalist hér þar til í september 2014 er kærandi hefði haldið aftur til Svíþjóðar. Þar sem ávallt hafi legið fyrir að kærandi myndi flytja aftur til Svíþjóðar þegar fæðingarorlofi tengdadóttur lyki hafi kærendur ekki hugað að flutningi búslóðar sinnar fyrr en á árinu 2015, en þá hafi A slasast og flutt til Íslands að nýju.

Samkvæmt framansögðu verður að fallast á með tollstjóra að ekki sé uppfyllt það skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar samkvæmt ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. og 1. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins, enda liggur fyrir að kærendur voru bæði búsett hér á landi á tímabilinu frá janúar til september 2014 og raunar bæði með skráð lögheimili hér á landi frá árinu 2010. Vegna athugasemda kærenda í kæru til yfirskattanefndar um tímamark búferlaflutnings skal tekið fram að í 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. nefndrar reglugerðar nr. 630/2008 er sett það skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar að viðkomandi hafi búslóðina með sér er hann flytur búferlum til landsins eða flytji hana til landsins eigi síðar en innan sex mánaða frá því að hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlaðist hér lögheimili. Yrði litið svo á að kærandi, A, hafi tekið sér bólfestu hér á landi á árinu 2013 er því ljóst að síðastnefndu skilyrði er ekki fullnægt í tilviki hennar, en fyrir liggur að með bréfi sínu, dags. 16. mars 2015, hafnaði tollstjóri því að veita kæranda undanþágu frá skilyrðinu á grundvelli niðurlagsákvæðis 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja