Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 104/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr., E-liður 1. og 3. tl.  

Greiðslumiði — Vaxtagjöld — Frádráttarbærni vaxtagjalda — Húsaleigufrádráttur — íbúðarlán — Skattframtal ófullnægjandi — Kröfugerð óljós

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1982 að lækka tilfærð vaxtagjöld til frádráttar um alls 2.600 kr., sem voru vextir af skuld við Gjaldheimtuna í Reykjavík og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Skattstjóri taldi, að þessi vaxtagjöld væru ekki frádráttarbær samkvæmt 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá strikaði skattstjóri út frádráttarliðinn „helmingur greiddrar húsaleigu samkvæmt greiðslumiða“, er nam 10.500 kr., þar sem greiðslumiði fylgdi ekki.

Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 11. nóvember 1982, var breytingum skattstjóra mótmælt. Með bréfi, dags. 23. desember 1982, barst rökstuðningur kæranda í málinu. Tekur kærandi fram, að það fé, sem fara átti til greiðslu á opinberum gjöldum hafi runnið til greiðslu á byggingarkostnaði. Það kæmi í sama stað niður fyrir húsbyggjanda, hvort hann fengi lán eða drægi að greiða t.d. opinber gjöld. Þá fylgdu kæru greiðslumiðar vegna íbúðarafnota og nemur fjárhæð greiddrar húsaleigu alls 102.000 kr. skv. miðunum.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 13. janúar 1983:

„Að kröfu kæranda um frádrátt vegna vaxtagjalda af skuldum við Gjaldheimtuna og LÍN verði hafnað þar sem eigi þykja uppfyllt skilyrði 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með vísan til innsends greiðslumiða vegna húsaleigu þykir mega fallast á að tilgreind fjárhæð á skattframtali komi til frádráttar.“

Þau skilyrði, sem sett eru í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir frádráttarbærni vaxtagjalda þykja eigi vera uppfyllt að því er varðar vaxtagjöld þau, sem hér um ræðir. Er kröfu kæranda því synjað að því er þetta kæruatriði varðar. Helmingur greiddrar húsaleigu samkvæmt innsendum greiðslumiðum nemur 51.000 kr. eða mun hærri fjárhæð en færð var til frádráttar í skattframtali. Engar skýringar liggja fyrir af hálfu kæranda á þessu misræmi. Telja verður, að krafa kæranda lúti aðeins að því að heimiluð verði til frádráttar sú fjárhæð, sem tilgreind var í skattframtali, þótt eigi komi það skýrt fram, enda hníga líkur að því að ritvilla sé í öðrum greiðslumiðanum. Samkvæmt þessu færast kæranda til frádráttar 10.500 kr. vegna greiddrar húsaleigu í samræmi við tilgreiningu í skattframtali.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja