Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 159/1983

Gjaldár 1982

Lög nr. 19/1982, 4. gr. 2. mgr.  

Sérstakur eignarskattur — Stjórnsýsla — Stofn til sérstaks eignarskatts — Fasteignanotkun — Skrifstofuhúsnæði

Með skattframtali sínu árið 1982 lét kærandi fylgja skrá vegna sérstaks eignarskatts á fasteignir, sem nýttar voru við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds í árslok 1981, sbr. lög nr. 19/1982, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Var í skránni m.a. tilfærð fasteignin X-götu, Reykjavík. Færði kærandi helming fasteignamatsverðs húss og lóðar sem stofn til hins sérstaka eignarskatts og gat þess, að notkun húsnæðisins, önnur en við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds, hefði verið fyrir lager, kortagerð o.fl. Með bréfi, dags. 28. júlí 1982, tilkynnti skattstjóri kæranda, að vörugeymslur og kortagerðarhúsnæði féllu undir ákvæði laga nr. 19/1982, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, og yrði nefnd fasteign því að fullu tekin með í stofn til hins sérstaka eignarskatts.

Með kæru, dags. 27. ágúst 1982, var ákvörðun skattstjóra mótmælt af hálfu kæranda og þess krafist, að hinn sérstaki eignarskattur yrði ákveðinn í samræmi við framtal. Af hálfu kæranda var gerð grein fyrir notkun hússins að X-götu, R., svo sem hér segir: „1. hæð: 70% verzlanir, 30% veitingastofa.

  1. hæð: Skrifstofur og verzlun.
  2. hæð: Korta- og loftmyndagerð 75%, skrifstofur 25% (Landmælingar Íslands).
  3. hæð: 5% skrifstofa (húseiganda) 95% skjalageymsla (Þjóðskjalasafn Íslands).“

Með úrskurði, dags. 4. janúar 1983, féllst skattstjóri á að leggja ofangreindar upplýsingar til grundvallar ákvörðun á stofni til sérstaks eignarskatts þannig, að veitingastofa og skjalageymsla Þjóðskjalasafns Íslands væru undanþegnar í skattstofni. Þá tók skattstjóri fram, að þar sem ekki væri getið rúmmáls einstakra hæða eða hluta húseignarinnar yrði miðað við jafna skiptingu og ákvarðaðist gjaldskyldur hluti því 68,75% af fasteigninni.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. janúar 1983, og þess krafist, að það húsnæði, sem Landmælingar Íslands hafi á leigu að X-götu, R., verði ekki talið með til skattstofns, þar sem þar fari fram korta- og loftmyndagerð, og geti því ekki talist skrifstofuhúsnæði. Einna helst væri að líta á þessa starfsemi sem iðnað, enda aðflutningsgjöld felld að verulegu leyti niður af hráefnum til þessarar framleiðslu, þar sem litið sé á hana sem samkeppnisiðnað.

Með bréfi, dags. 14. mars 1983, er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda verði starfsemi Landmælingafélags Íslands (sic) talin til skrifstofuhalds í venjubundnum skilningi þess orðs. M.a. er bent á, að almenn verkfræðistörf og tæknistörf, sem unnin séu innandyra, hafi hingað til verið flokkuð undir skrifstofustörf við ákvörðun skattstofns samkvæmt lögum um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.

Sérstök ríkisstofnun, Landmælingar Íslands, hefur á leigu þann hluta fasteignarinnar X-götu, Reykjavík, sem deilt er um í máli þessu hvort mynda skuli stofn til sérstaks eignarskatts samkvæmt lögum nr. 19/1982, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofu-húsnæði. Þegar litið er til starfsemi Landmælinga Íslands og þess, að sú stofnun hefur eigi stjórnsýslu að meginverkefni, þykir bera að taka kröfu kæranda til greina. Samkvæmt upplýsingum kæranda nýta Landmælingar Íslands alla 3. hæð hússins. Samkvæmt þessu mynda 44% af fasteignamatsverði húss og lóðar að X-götu, Reykjavík, stofn til sérstaks eignarskatts gjaldárið 1982, enda hefur sá skiptigrundvöllur, sem skattstjóri miðaði við, þ.e.a.s. gerði ráð fyrir jafnri stærð hæða, þar sem annað lá eigi fyrir, eigi sætt neinum andmælum af hálfu kæranda, sbr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 19/1982, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja