Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 600/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. og 41. gr.  

Vanreifun máls — Munnlegar upplýsingar — Viðhaldskostnaður — Frávísun

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1979 að lækka gjaldfærðan viðhaldskostnað við íbúðarhúsnæði kæranda um 120 000 kr. eða úr 503 768 kr. í 383 768 kr. Taldi skattstjóri að virtum framlögðum kvittunum vegna kostnaðar þessa og að fengnum munnlegum skýringum kæranda í framhaldi af fyrirspurnarbréfi, dags. 26. júní 1979, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 13. júlí 1979, að í tilfærðum viðhaldskostnaði fælist að nokkru kostnaður vegna endurbóta, er hæfilegt væri að meta á 120 000 kr.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að allur tilfærður viðhaldskostnaður verði að fullu tekinn til greina, enda hafi kvittanir og launamiðar verið framlagðir til sönnunar og mat skattstjóra á frádráttarbærum viðhaldskostnaði sé ekki rökstutt.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 13. október 1980:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda telst umræddur kostnaður við framkvæmdir á húseign kæranda hafa verið vegna endurbóta og eignarauka.“

Í máli þessu liggur eigi fyrir lýsing á ástandi húseignar kæranda fyrir og eftir að viðgerð fór fram og í hverju viðgerð var fólgin í einstökum atriðum. Eigi var lögð fram af hálfu kæranda greinargerð sú, er skattstjóri óskaði eftir í bréfi sínu, dags. 26. júní 1979. Það er við meðferð skattstjóra að athuga, sbr. bréf hans dags. 13. júlí 1979, að hann byggði á munnlegum skýringum kæranda á hinum umdeilda viðhaldskostnaði, er eigi var rétt, sbr. ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, og kemur eigi fram í hverju skýringarnar voru fólgnar. Svo sem mál þetta er vaxið samkvæmt framansögðu þykir bera að vísa því frá sökum vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja