Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 85/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 92. gr.  

Rekstrarkostnaður — Hráefniskostnaður — Fiskvinnsla — Fiskveiðar — Útgerðarkostnaður — Aflauppbót — Greiðsla fiskvinnslufyrirtækis á útgerðarkostnaði viðskiptabáts — Ólögmætt þvingunarúrræði — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda hráefniskaupanda

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem rekur fiskvinnslu, gjaldfærði meðal hráefniskostnaðar í rekstrarreikningi sínum árið 1987 veiðarfæri, beitu og ís að fjárhæð 238.040 kr. Með bréfi, dags. 22. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að gjaldaliður þessi hefði verið felldur niður, enda yrði ekki séð af fylgiskjölum með ársreikningi á hvern hátt kaup á veiðarfærum, beitu og ís tengdist rekstri fiskvinnslu.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breyting skattstjóra kærð með kæru, dags. 19. ágúst 1988, og því haldið fram, að um fullkomlega eðlilegan útgjaldalið væri að ræða hjá fiskvinnslufyrirtæki, er félli undir 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Alsiða væri, að samningar við viðskiptabáta fiskvinnslu tækju til greiðslu ýmiss útgerðarkostnaðar sem aflauppbótar til útgerðar ofan á fiskverð, er yrði þannig hluti af hráefniskostnaði.

Með kæruúrskurði, dags. 8. desember 1988, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á svofelldum forsendum:

„Gjaldaliður sá er um er deilt hefur ekki verið rökstuddur á þann hátt að fyrir liggi hvaða bátar hafa notið slíkra greiðslna í formi veiðarfæra, beitu og íss, en meta ber slíkt til tekna hjá þeim er við tekur. Hvort slíkir samningar sem þessir eru „alsiða“ eða ekki skiptir ekki máli í þessu sambandi, þar sem ekki liggur fyrir hver nýtur umræddra greiðslna.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 23. desember 1988, og er þess krafist, að umræddur gjaldaliður 238.040 kr. verði tekinn til greina. Í kærunni segir svo m.a.:

„Kæru þessari var hafnað með úrskurði dagsettum 8. desember 1988 og er henni því skotið til úrskurðar ríkisskattanefndar, með sömu kröfum og áður, en til viðbótar fyrri rökstuðningi skal það áréttað að hin umdeilda upphæð er einkum veiðarfæri þ.e. netaslöngur, sem útgerðum viðskiptabáta er látið í té. Ekki hefur verið haldin skrá um viðtakendur, enda ekki verið talin þörf á því, þar sem þetta eru ekki hlunnindi í skilningi skattalaga, heldur lækkun á kostnaði þeirra útgerða sem móttekið hafa. Þannig verður sú afstaða sem kemur fram í hinum kærða úrskurði að þetta skuli telja til tekna hjá móttakanda óskiljanleg, þar sem þetta hefur þegar lækkað kostnað viðtakenda og þannig hækkað skattstofn þeirra.“

Með bréfi, dags. 12. janúar 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi sýnast nein efni til þess að vefengja umræddan gjaldalið. Í ljósi forsendna skattstjóra er tilefni til þess að benda á, að lögfest eru sérstök úrræði til þess að knýja fram þær upplýsingar, sem skattstjóri víkur að í forsendunum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja