Úrskurður yfirskattanefndar

  • Leiðrétting í kjölfar dóms
  • Sérstakt hæfi
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 351/2004

Gjaldár 1998-2002

Lög nr. 30/1992, 1. gr., 2. gr., 16. gr.   Lög nr. 91/1991, 5. gr. g-liður.  

Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar í máli þessu að almennt yrði ekki talið að sú aðstaða, að niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar hefði verið hnekkt með dómi, gæti ein og sér leitt til vanhæfis nefndarmanna, sem tekið hefðu þátt í meðferð málsins, til meðferðar annars máls þar sem reyna kynni á sömu eða hliðstæð álitaefni og um væri fjallað í viðkomandi dómsmáli. Var kröfu kærenda um að nefndarmenn yfirskattanefndar vikju sæti í máli þeirra hafnað. Fallist var á kröfu kærenda um leiðréttingu álagningar gjaldárið 2000, en kröfum þeirra um dráttarvexti og skaðabætur var vísað frá yfirskattanefnd þar sem ekki var talið á valdsviði nefndarinnar að fjalla um þær.

I.

Með kæru, dags. 9. desember 2003, og rökstuðningi í bréfi, dags. 17. janúar 2004, hafa kærendur skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 2. september 2003, um endurupptöku álagningar kærenda gjaldárin 1998, 1999, 2000, 2001 og 2002, til yfirskattanefndar. Með úrskurði sínum féllst ríkisskattstjóri á skatterindi kærenda, sem barst embættinu 11. júní 2003, um breytingu á álagningu opinberra gjalda vegna tekjuáranna 1996 til og með 2000 í framhaldi af dómi Hæstaréttar Íslands frá 28. maí 2003 í málinu nr. 499/2002: Íslenska ríkið gegn Jónasi Guðmundssyni. Með dómi þessum staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júní 2002 um að ákvæði 5. mgr. 3. gr. laga nr. 137/1996 um breyting á B-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt, sem tók gildi 1. janúar 1997, hefði falið í sér afturvirka skerðingu á skatthagræði vegna hlutafjárkaupa á árinu 1996 samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 147/1994 um breyting á B-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 sem bryti í bága við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar og yrði ekki beitt gagnvart stefnanda, Jónasi Guðmundssyni. Sú niðurstaða leiddi til þess að úrskurður yfirskattanefndar nr. 515/1999, sem kveðinn var upp 29. september 2001, var felldur úr gildi, en með þeim úrskurði hafði nefndin synjað kröfu stefnandans um að fella úr gildi breytingar skattstjóra á skattframtali hans árið 1998 um fjárhæð frádráttar frá tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, sbr. 1. mgr. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 3. gr. laga nr. 137/1996.

II.

Málavextir eru þeir að með skattframtölum kærenda árin 1997 til og með 2002 fylgdi hvert ár greinargerð um fjárfestingu manna í atvinnurekstri (RSK 3.10). Í skattframtali 1997 færðu kærendur hámarksfrádrátt hjóna 207.840 kr. í reit 83. Samkvæmt greinargerð kærenda með skattframtali árið 1997 nam kaupverð hlutabréfa í staðfestum félögum á árinu 1996 1.300.001 kr. og endurmetinn ónýttur frádráttur vegna kaupa 1994 og 1995 nam 10.501 kr. Samtals jákvæður mismunur í lið C6 í greinargerð kærenda nam því 1.310.502 kr. og var sú fjárhæð lögð til grundvallar útreikningi frádráttar ársins að hámarki 207.840 kr. fyrir hjón til færslu í reit 87 í skattframtali og ónýtts frádráttar 1.050.703 kr. miðað við 80% hlutfall af fjárfestingu í lið D. Við álagningu opinberra gjalda ársins 1997 var greinargerð kærenda lögð óbreytt til grundvallar umrædds frádráttar.

Í skattframtali 1998 færðu kærendur sömu fjárhæð og árið á undan sem nú færðist í reit 598 eða 207.840 kr. Samkvæmt greinargerð kæranda nam fjárfesting í atvinnurekstri á árinu 1997 137.673 kr., endurmetin ónýtt heimild af framtali 1997 nam 1.071.927 kr. og jákvæður mismunur í lið C7 í greinargerð kærenda nam 1.209.600 kr. sem lagður var til grundvallar útreikningi frádráttar ársins í lið D með þeim frávikum frá formi greinargerðarinnar að frádráttur var miðaður við 80% fjárfestingar í stað 60% og hámark frádráttar ársins fyrir hjón 207.840 kr. í stað 155.880 kr. Ónýtt frádráttarheimild var á þessum forsendum tilgreind 949.800 kr. Til skýringar var árituð athugasemd um að stærstur hluti þessara bréfa hefði verið keyptur 1996 þegar skattalög heimiluðu 80% frádrátt í fimm ár. Með bréfi, dags. 28. maí 1998, boðaði skattstjóri kærendum lækkun umrædds frádráttar úr 207.840 kr. í 155.880 kr. með vísan til ákvæða B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 sem skattstjóri gerði nánari grein fyrir. Í bréfi, dags. 3. maí 1998, er barst skattstjóra 3. júní 1998, mótmæltu kærendur boðaðri breytingu. Drógu þau í efa að lagabreyting á lögum nr. 75/1981 með lögum nr. 137/1996 væri heimil þar sem hún hefði afturvirkni sem væri andstætt meðal annars stjórnarskrá og nægði að benda á 2. mgr. 77. gr. laga nr. 33/1944, með síðari breytingum, þar sem kveðið væri á um að enginn skattur yrði lagður á nema heimild hefði verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem réðu skattskyldu. Einnig véku þau að efnisákvæðum 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 sem gilt hefðu þegar umrædd fjárfesting var gerð. Með tilkynningu, dags. 27. júlí 1998, hratt skattstjóri boðaðri breytingu í framkvæmd sem hann rökstuddi nánar með vísan til efnisákvæða 1. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 eins og þeim hafði verið breytt með lögum nr. 137/1996 og giltu við álagningu opinberra gjalda árið 1998. Í rökstuðningi sínum kvað skattstjóri ekki verða séð að breytingar, sem gerðar hefðu verið á skilyrðum frádráttar samkvæmt umræddu ákvæði, brytu í bága við tilvitnað stjórnarskrárákvæði og tók fram í því sambandi að ekki væri verið að tala um heimild til að leggja á skatta heldur heimild til frádráttar á móti tekjum. Var skattframtal kærenda þannig breytt lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda árið 1998. Af hálfu kærenda var álagningin ekki kærð til skattstjóra.

Með skattframtali kærenda árið 1999 fylgdi útfyllt greinargerð (RSK 3.10) í samræmi við form hennar, en á fyrstu síðu skattframtalsins var tekið fram að útreikningur í greinargerðinni væri gerður með fyrirvara. Samkvæmt formi greinargerðarinnar skyldi frádráttur miðast við 60% af fjárfestingu ársins 1998 að viðbættri 40% af ónýttri heimild frá síðasta ári, þó að hámarki 266.294 kr., og að teknu tilliti til seldra hlutabréfa á árinu og hámarki frádráttar fyrir hjón 160.000 kr. Á þessum forsendum færðu kærendur frádrátt 60% af kaupverði hlutabréfa 31.246 kr. á árinu 1998 eða 18.748 kr. og 40% af hámarki vegna ónýttrar heimildar 266.294 kr. eða 106.518 kr. eða samtals frádrátt 125.266 kr. sem þau færðu í reit 598 í skattframtali. Miðað við endurmetna ónýtta heimild frá fyrra ári með verðbreytingarstuðlinum 1,027 eða 961.882 kr. að frádreginni nýttri heimild að hámarki 266.294 kr. nam ónýtt heimild til næsta árs 695.588 kr. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1999 var greinargerð kæranda lögð óbreytt til grundvallar umrædds frádráttar.

Samkvæmt greinargerð RSK 3.10 með skattframtali kærenda 2000, sem lögð var til grundvallar við álagningu opinberra gjalda það ár, miðaðist frádráttur við 60% af kaupverði hlutabréfa 191.966 kr. á árinu 1999 eða 115.180 kr. og 20% af nýttri heimild 224.100 kr. eða 44.820 kr. vegna endurmetinnar ónýttrar heimildar frá fyrra ári með verðbreytingarstuðlinum 1,0561 eða 734.610 kr. Þannig nutu kærendur hámarksfrádráttar fyrir hjón 160.000 kr. sem færður var til frádráttar í reit 598 í framtali og ónýttur frádráttur til næsta árs nam 510.510 kr., en sem í reynd féll niður, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 154/1998. Við álagningu opinberra gjalda 2001 og 2002 nýttu kærendur hámarksheimild hjóna til frádráttar vegna fjárfestingar í hlutabréfum eða 160.000 kr. hvort ár vegna keyptra hlutabréfa 292.823 kr. á árinu 2000 og 266.666 kr. á árinu 2001.

Í samræmi við ákvæði 1. og 2. tölul. 63. gr. laga nr. 75/1981 færðist umræddur frádráttur til lækkunar tekjum kæranda, A, í skattframtölum 1998, 1999 og 2002 og tekjum kæranda, B, í skattframtölum 2000 og 2001.

III.

Með skatterindi í bréfi, dags. 11. júní 2003, óskuðu kærendur eftir að álagning opinberra gjalda yrði endurákvörðuð í framhaldi af dómi Hæstaréttar um hlutafjárkaup á árinu 1996. Vísað var til þess að skatterindið varðaði skattframtöl þeirra fyrir árin 1996 – 2000. Þar sem langt væri um liðið óskaðist þessi endurákvörðun framkvæmd eins og fljótt og auðið væri.

Með úrskurði, dags. 2. september 2003, tók ríkisskattstjóri skatterindi kærenda til svofelldrar úrlausnar:

„Farið er fram á endurupptöku álagningar gjaldárin 1997 til 2001 fyrir tekjuárin 1996 til 2000 í erindinu. Málavextir eru þeir að gjaldandi keypti á árinu 1996 hlutabréf í staðfestum félögum að fjárhæð kr. 1.300.001. Á framtali 1997 var fært til frádráttar kr. 207.840 vegna fjárfestingar í hlutabréfum. Að teknu tilliti til ónýtts frádráttar frá árunum 1994 og 1995 var ónýtt frádráttarheimild sem færðist til næsta árs kr. 1.050.703. Með lögum nr. 137/1996 var það skattahagræði sem fólst í ónýttri frádráttarheimild skert og tóku lögin gildi í byrjun árs 1997. Með vísan til þessarar lagabreytingar lækkaði skattstjóri frádrátt vegna fjárfestingar í atvinnurekstri úr kr. 207.840 kr. í kr. 155.880 á skattframtali 1998. Hæstiréttur dæmdi þann 28. maí sl. að lagabreytingin fæli í sér afturvirkni sem bryti í bága við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Fallist er á erindið. Gjaldárið 1997 er færður fullur frádráttur að fjárhæð kr. 207.840. Gjaldárið 1998 hækkar frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri úr kr. 155.880 í kr. 207.840 eða um kr. 51.960. Gjaldárið 1999 hækkar frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri úr 125.266 í kr. 207.840 eða um kr. 82.574. Gjaldárið 2000 hækkar frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri úr kr. 160.000 í kr. 207.840 eða um 47.840. Gjaldárið 2001 hækkar frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri úr kr. 160.000 í kr. 207.840 eða um kr. 47.840. Gjaldárið 2002 hækkar frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri úr kr. 160.000 í kr. 207.840 eða um kr. 47.840.“

Í úrskurðarorði kom fram að hækkun frádráttar kæmi til lækkunar tekjuskatts- og útsvarsstofni kæranda, A, gjaldárin 1998, 1999 og 2002 og kæranda, B, gjaldárin 2000 og 2001. Með úrskurði ríkisskattstjóra fylgdu skattbreytingarseðlar vegna gjaldáranna 1998 til 2001, dags. 9. september 2003, og vegna gjaldárs 2002, dags. 2. september 2003, í samræmi við úrskurðaðar breytingar og að auki skattbreytingarseðill, dags. 9. september 2003, vegna skattbreytingar til lækkunar tekjuskatti og útsvari um samtals 18.679 kr. að meðtöldu álagi samkvæmt 121. gr. laga nr. 75/1981 hjá A gjaldárið 2000 sem með hliðsjón af niðurstöðu ríkisskattstjóra virðist nærtækast að skýra á þann hátt að hækkun frádráttar um 47.840 kr. hjá B hafi jafnframt vegna mistaka í framkvæmd gjaldabreytinga verið færð með 200 kr. lægri fjárhæð eða 47.640 kr. til hækkunar frádráttar hjá kæranda, A.

IV.

Með kæru, dags. 9. desember 2003, og framhaldsgreinargerð í bréfi, dags. 17. janúar 2004, hafa kærendur skotið úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 2. september 2003, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæruefni séu í fyrsta lagi breyting gjalda kæranda, A, gjaldárið 2000, í öðru lagi svipting þess réttar að mega nýta fjárfestingu í hlutabréfum árið 1996 til frádráttar tekjum tekjuárin 2000 og 2001, í þriðja lagi vaxtaútreikningur vegna leiðréttinga árin 1998, 1999, 2000, 2001 og 2002 og til greiðsludags og í fjórða lagi „vanhæfi yfirskattanefndar til að fjalla um bætur vegna rangrar lagasetningar yfirvalda um málefni sem yfirskattanefnd hefur þegar fellt ógildan úrskurð um“, eins og þar segir. Þá er sett fram svohljóðandi kröfugerð í kærunni:

„1) Að breyting álagningar ársins 2000 vegna tekjuársins 1999 vegna tekna A verði bakfærð.

2) Skaðabóta vegna vaxta á kr. 259.800,- frá 01.01.2001 til 31.12.2001 og á kr. 519.600,- frá 01.01.2002 til greiðsludags skaðabóta.

3) Dráttarvaxta á allar leiðréttingar og skaðabætur frá álagningardegi hvers árs til greiðsludags.

4) Að þeir nefndarmenn og starfsmenn yfirskattanefndar sem komið hafa að þessu máli áður, víki sæti við úrlausn þessa máls.“

Varðandi kröfu um breytingu á álagningu opinberra gjalda kæranda, A, gjaldárið 2000, sbr. 1. lið í kröfugerð kærenda, kemur fram í kærunni að kærandi, A, hafi ekki notið frádráttar umrætt ár þar sem kærandi, B, hafi verið með hærri tekjur tekjuárið 1999, en ríkisskattstjóri hafi breytt álagningu beggja kærenda. Þá er tekið fram, vegna 2. liðar í kröfugerðinni, að þar sem lög nr. 137/1996 hafi ranglega fellt brott þann möguleika að nýta fjárfestingu ársins 1996 til frádráttar tekjum tekjuárin 2000 og 2001 hafi verið nauðsynlegt að leggja út aukið fé til fjárfestingar í hlutabréfum til þess að geta nýtt frádrátt frá tekjum þessara ára. Að því er snertir kröfu um dráttarvexti, sbr. 3. lið hér að framan, er bent á í kæru til yfirskattanefndar að þar sem viðurlög við brotum á stjórnarskrá séu hvergi til umfjöllunar í skráðum lögum sé hvergi að finna fyrirmæli um útreikning á skaðabótum og dráttarvöxtum við slíkar aðstæður. Vísa kærendur í því sambandi til ákvæða 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og taka fram að þau líti svo á að ógildan úrskurð megi leggja að jöfnu við úrskurð sem kveðinn sé upp að liðnum lögboðnum úrskurðarfresti, sbr. 3. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003. Þá sé sanngirniskrafa að „skattsvik yfirvalda og brot á stjórnarskrá séu dráttarvaxtaskyld“. Þá er vísað til 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, varðandi dráttarvexti á skaðabætur. Kærendur hafi getið þess í skattframtali sínu árið 1998 vegna tekna á árinu 1997 að breyting skattstjóra á skattskilum þeirra væri röng. Þá hafi sýslumaður í höndum fyrirvara um lögmæti skattbreytingarinnar. Vegna þeirrar kröfu kærenda sem lýtur að vanhæfi nefndarmanna og starfsmanna yfirskattanefndar kemur fram í niðurlagi kærunnar að yfirskattanefnd hafi áður fellt úrskurð í umræddu skattamáli sem Hæstiréttur Íslands hafi síðar dæmt ógildan, sbr. dóm réttarins í máli nr. 499/2002. Telji kærendur því að yfirskattanefnd sé „vanhæf, öll eða að hluta, til að meta og ákvarða skaðabætur vegna eigin úrskurðar“.

V.        

Með bréfi, dags. 7. maí 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Með úrskurði sínum, dags. 2. september 2003, féllst ríkisskattstjóri á erindi kæranda. Gjaldárið 2000 var kærandi B með hærri tekjuskattsstofn en kærandi A og því lækkaði stofn B til útreiknings tekjuskatts og útsvars vegna fjárfestingar í hlutabréfum. Ekki verður betur séð en að stofn kæranda A hafi orðið lægri en efni stóðu til og því fellst ríkisskattstjóri á þá kröfu kærenda að hækka tekjuskattsstofn A um kr. 47.640 kr. gjaldárið 2000.

Kærendur halda því fram að yfirskattanefnd sé vanhæf vegna afskipta nefndarinnar af öðru máli. Ríkisskattstjóri hafnar þessari málsástæðu og bendir á að í því máli úrskurðaði yfirskattanefnd í samræmi við þágildandi lög sem Hæstiréttur dæmdi síðar að fæli í sér afturvirkni sem bryti í bága við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 499/2002.

Samkvæmt sendingarlista ríkisskattstjóra verður ekki betur séð en að úrskurður ríkisskattstjóra hafi verið póstlagður 9. september 2003, og gerir ríkisskattstjóri engar athugasemdir við það að kæra kærenda barst yfirskattanefnd ekki fyrr en 9. desember 2003.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. maí 2004, var kæranda, A, sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VI.

Kæra í máli þessu varðar úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 2. september 2003, sem kveðinn var upp um erindi kærenda til ríkisskattstjóra frá 11. júní 2003 þar sem kærendur fóru fram á leiðréttingu á álagningu opinberra gjalda gjaldárin 1997 til og með 2001, sbr. heimild ríkisskattstjóra í 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Í erindi kærenda kom fram að tilefni þess væri hæstaréttardómur um hlutabréfakaup á árinu 1996 og var þar nánar tiltekið átt við dóm Hæstaréttar Íslands frá 28. maí 2003 í máli nr. 499/2002 (Íslenska ríkið gegn Jónasi Guðmundssyni). Með dómi þessum var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. júní 2002 þar sem felldur var úr gildi úrskurður yfirskattanefndar nr. 515/1999 og stefndi, íslenska ríkið, dæmt til að greiða stefnanda, Jónasi Guðmundssyni, 21.460 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. desember 2001 til greiðsludags. Í dómi meiri hluta Hæstaréttar var talið að breyting á reglum um frádrátt frá tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, sem gerð var með lögum nr. 137/1996, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. mgr. 3. gr. þeirra laga, hafi falið í sér afturvirkni skattalaga sem brotið hafi í bága við 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 2. mgr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, þar sem mælt er fyrir um bann við afturvirkni skattalaga. Með hinum kærða úrskurði sínum, dags. 2. september 2003, féllst ríkisskattstjóra á erindi kærenda. Var kærendum með úrskurði ríkisskattstjóra ákvarðaður frádráttur vegna hlutabréfakaupa að fjárhæð 207.480 kr. hvert gjaldár 1998, 1999, 2000, 2001 og 2002, þ.e. hámarksfrádráttur hjóna samkvæmt þeim reglum sem giltu um frádrátt þennan við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1997, sbr. ákvæði 4. tölul. B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 147/1994, um breyting á þeim lögum.

Hér að framan er greint frá kröfugerð kærenda í kæru þeirra til yfirskattanefndar, sbr. greinargerð kærenda, dags. 17. janúar 2004. Eins og þar kemur fram er þess m.a. krafist af hálfu kærenda að „þeir nefndarmenn og starfsmenn yfirskattanefndar sem komið hafa að þessu máli áður, víki sæti við úrlausn þessa máls“, eins og segir í bréfi kærenda. Kemur fram að yfirskattanefnd hafi fellt úrskurð í hliðstæðu máli sem Hæstiréttur Íslands hafi dæmt ógildan og af þeim sökum telji kærendur að yfirskattanefnd sé, í heild eða að hluta, vanhæf til umfjöllunar um kröfur kærenda. Ljóst virðist samkvæmt framansögðu að kærendur líta svo á að þeir nefndarmenn og starfsmenn yfirskattanefndar, sem tóku þátt í meðferð þess máls sem lauk með úrskurði yfirskattanefndar nr. 515/1999, sem síðar var felldur úr gildi af dómstólum eins og fyrr greinir, séu vanhæfir til meðferðar máls kærenda.

Í tilefni af þessum sjónarmiðum kærenda skal tekið fram að um vanhæfi nefndarmanna í yfirskattanefnd er fjallað í 16. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Þar kemur fram að nefndarmanni sé skylt að víkja sæti úr nefndinni í máli ef honum hefði borið að víkja sæti sem héraðsdómari í málinu. Þá sé nefndarmanni óheimilt að sitja í nefndinni til úrskurðar um kærumál skattaðila sem hann hefur haft afskipti af í fyrri störfum sínum og varðar skattákvörðun viðkomandi. Ganga ákvæði þessi framar ákvæðum um sérstakt hæfi í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er fjallað um sérstakt hæfi dómara. Þegar virt eru þau atvik sem kærendur telja að leiði til vanhæfis nefndarmanna yfirskattanefndar verður að álykta að kærendur telji að við eigi sú matskennda hæfisregla, sem greinir í g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, þ.e. að fyrir hendi séu önnur þau atvik eða aðstæður en greinir í a-f liðum greinarinnar sem fallnar séu til þess að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa.

Almennt verður ekki talið að sú aðstaða, að niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar hefur verið hnekkt með dómi, geti ein og sér leitt til vanhæfis nefndarmanna í yfirskattanefnd, sem tekið hafa þátt í meðferð málsins, til meðferðar máls þar sem reyna kann á sömu eða hliðstæð álitaefni og um var fjallað í viðkomandi dómsmáli, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar Íslands frá 7. febrúar 2002 í máli nr. 49/2002 og frá 18. nóvember 2003 í máli nr. 426/2003 (Jórunn Anna Sigurðardóttir gegn íslenska ríkinu). Verður ekki séð að slíkar aðstæður feli í sér slíka einstaklega hagsmuni nefndarmanna að óhlutdrægni þeirra í málinu verði með réttu dregin í efa, enda geta kærendur ekki um neina slíka hagsmuni. Að framangreindu virtu verður ekki séð að ákvæði g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, né önnur ákvæði þeirrar lagagreinar, sbr. 16. gr. laga nr. 30/1992, leiði til þess að telja beri að einstakir nefndarmenn yfirskattanefndar séu vanhæfir til þess að fjalla um mál kærenda. Kröfu kærenda um að nefndarmenn yfirskattanefndar víki sæti í máli þeirra er því hafnað.

Víkur þá að efnishlið málsins. Eins og áður greinir er þess krafist af hálfu kærenda að breyting ríkisskattstjóra á áður álögðum opinberum gjöldum kæranda, A, gjaldárið 2000 verði „bakfærð“, sbr. 1. lið í kröfugerð kærenda. Er bent á í kæru til yfirskattanefndar að opinberum gjöldum A hafi verið ranglega breytt þar sem hann hafi ekki notið frádráttar, enda hafi kærandi, B, verið tekjuhærri tekjuárið 1999. Eins og fram kemur í lýsingu málavaxta í kafla III í úrskurði þessum virðist sem þau mistök hafi átt sér stað við framkvæmd gjaldabreytinga samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra að hækkun frádráttar um 47.840 kr. hjá kæranda, B, hefur jafnframt verið færð sem frádráttur hjá kæranda, A, þó með 200 kr. lægri fjárhæð eða 47.640 kr. Samkvæmt þessu er fallist á kröfu kærenda varðandi þetta atriði og umræddur frádráttur hjá kæranda, A, gjaldárið 2000 felldur niður.

Að öðru leyti en að framan greinir lúta kröfur kærenda í máli þessu að því að þeim verði ákveðnar skaðabætur og dráttarvextir, sbr. 2. og 3. lið í kröfugerð kærenda. Af þessu tilefni skal tekið fram að úrskurðarvald yfirskattanefndar er skilgreint svo í 1. og 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, að það taki til ákvörðunar skatta, gjalda og skattstofna svo sem nánar greinir. Litið hefur verið svo á að ágreiningsefni varðandi innheimtu álagðra opinberra gjalda, þ.m.t. vexti, eigi ekki undir kærumeðferð þá sem mælt er fyrir um í lögum nr. 30/1992. Er því ekki á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kærenda varðandi dráttarvexti. Sama máli gegnir um skaðabótakröfur kærenda, en um slík mál fjalla dómstólar. Kröfum kærenda varðandi dráttarvexti og skaðabætur er af þessum sökum vísað frá yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda um að nefndarmenn yfirskattanefndar víki sæti í máli þessu er hafnað. Fallist er á kröfu kærenda varðandi álagningu opinberra gjalda kæranda, A, gjaldárið 2000 og hækkar tekjuskatts- og útsvarsstofn hans umrætt gjaldár um 47.640 kr. Að öðru leyti er kærunni vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja