Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Vinningur

Úrskurður nr. 304/2004

Gjaldár 2003

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 4. tölul., 30. gr. 1. mgr. A-liður 3. tölul.  

Kærandi mótmælti skattlagningu vinnings að fjárhæð 400.000 kr. vegna þátttöku kæranda í spurningaþætti í sjónvarpi. Undanþáguákvæði skattalaga um tækifærisgjafir og verðlitla vinninga í almennum happdrættum og keppnum þóttu ekki eiga við í tilviki kæranda. Þar sem um skattskyldar tekjur væri að ræða var kröfu kæranda hafnað.

I.

Með kæru, dags. 6. júní 2004, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 5. mars 2005. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að færa kæranda til tekna í lið 2.3 í skattframtali árið 2003 vinning að fjárhæð 400.000 kr. vegna þátttöku kæranda í spurningaþættinum „Viltu vinna milljón“, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, en tekjur þessar hafði kærandi tilgreint í reit 597 í skattframtali sínu sem skattfrjálsa vinninga í happdrættum, getraunum og talnaleikjum. Í kæru til yfirskattanefndar er tekjufærslu skattstjóra mótmælt.

II.

Málavextir eru þeir að í bréfi til kæranda, dags. 19. janúar 2004, vísaði skattstjóri til upplýsinga frá X hf. um greiðslu vinnings til kæranda árið 2002 vegna þátttöku í spurningaþættinum „Viltu vinna milljón“. Skoraði skattstjóri á kæranda að veita upplýsingar um þessa greiðslu, sem væri skattskyld samkvæmt 4. tölul. A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í skattframtali kæranda árið 2003 hefði í lið 2.9 verið gerð grein fyrir skattfrjálsum tekjum að fjárhæð 400.000 kr., en kærandi hefði hins vegar ekki gert grein fyrir framangreindri greiðslu sem skattskyldum tekjum í framtalinu.

Af hálfu kæranda var bréfi skattstjóra ekki svarað og með bréfi, dags. 11. febrúar 2004, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hennar árið 2003 þar sem fyrirhugað væri að tekjufæra í lið 2.3 í skattframtali kæranda árið 2003 vinning að fjárhæð 400.000 kr. sem kærandi hefði fengið í spurningaþættinum „Viltu vinna milljón“. Um skattskyldu teknanna vísaði skattstjóri til 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. mars 2004, hratt skattstjóri boðaðri tekjufærslu í framkvæmd og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda í samræmi við það. Skattstjóri tók fram að engar athugasemdir hefðu borist frá kæranda vegna boðunarbréfs, dags. 11. febrúar 2004. Í úrskurði skattstjóra kom fram að með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum þætti jafnframt mega hækka ívilnun vegna veikinda, sem ákvörðuð hefði verið við almenna álagningu opinberra gjalda, úr 140.000 kr. í 250.000 kr.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 6. júní 2004, gerir kærandi grein fyrir erfiðum högum sínum. Kemur þar m.a. fram að kærandi sé 75% öryrki og að börn kæranda hafi einnig átt við heilsuleysi að stríða. Fjárhagsaðstæður kæranda séu og hafi verið mjög erfiðar og hafi kærandi þurft að leita aðstoðar í því sambandi frá félagsmálayfirvöldum og fjölskyldu sinni. Þegar kæranda hafi árið 2002 áskotnast umræddur vinningur að fjárhæð 400.000 kr. í spurningaþættinum Viltu vinna milljón hafi kærandi í fyrsta skipti í 10 ár haft eitthvað aukalega til að greiða niður skuldir. Því sé eins og högg í bakið þegar skattstjóri hafi nú tveimur árum síðar ákveðið að skattleggja greiðsluna sem komi m.a. niður á barnabótum. Kveðst kærandi vona að sér verði fyrirgefið að hafa fært vinninginn í lið 2.9 í stað 2.3 í skattframtali sínu árið 2003.

IV.

Með bréfi, dags. 7. júlí 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Kæruna til yfirskattanefndar verður að skilja svo að krafist sé niðurfellingar á hinni kærðu tekjufærslu skattstjóra. Þá verður að telja að kæran lúti öðrum þræði að ívilnun í sköttum samkvæmt ákvæðum 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Eins og fram er komið gerði kærandi grein fyrir umræddum tekjum í lið 2.9 (skattfrjálsar tekjur) í skattframtali sínu árið 2003. Af hálfu kæranda er því þó ekki haldið fram að um skattfrjálsar tekjur sé að ræða. Tekið skal fram að samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. áður lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, teljast m.a. til skattskyldra tekna verðlaun og heiðurslaun, vinningar í happdrætti, veðmáli eða keppni. Í 3. málsl. töluliðarins er gerð undantekning varðandi tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir, svo og verðlitla vinninga í almennum happdrættum og keppnum. Síðastnefnt undanþáguákvæði um verðlitla vinninga, sem var lögfest með 1. gr. laga nr. 147/1994, þykir ekki eiga við í tilviki kæranda, sbr. m.a. athugasemdir við 1. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 147/1994. Þá er ekki um tækifærisgjöf að ræða. Samkvæmt 3. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 er heimilt að draga frá tekjum manna tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laganna sem skattfrjálsar eru samkvæmt sérlögum eða vinninga í happdrættum sem fengið hafa leyfi dómsmálaráðuneytisins, enda sé öllum ágóða af þeim varið til menningarmála, mannúðarmála eða kirkjulegrar starfsemi. Vinningur kæranda uppfyllir ekki þessi skilyrði og því á greind frádráttarheimild ekki við um tilvik kæranda.

Í 2. málsl. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að endurákvarða skuli skattaðila skatta ef í ljós kemur að honum hefur ekki verið gert að greiða skatt af öllum tekjum sínum og eignum eða ef ekki hefur verið lagt á skattaðila. Með vísan til þessa og þar sem um skattskyldar tekjur er að ræða, sbr. að framan, og endurákvörðun skattstjóra var að öðru leyti í samræmi við lög, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og gerð innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 97. gr. laganna, sbr. sérstaklega 2. mgr. þeirrar lagagreinar, verður ekki fallist á kröfu kæranda og er henni því hafnað.

Að því leyti sem kæra kærenda til yfirskattanefndar felur í sér beiðni um ívilnun samkvæmt 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, skal tekið fram að um ívilnanir í sköttum samkvæmt ákvæðum 65. gr. og 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og 21. og 25. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, fjalla skattstjórar og ríkisskattstjóri og eftir atvikum hlutaðeigandi sveitarstjórn. Er lögfest sérstök málskotsleið í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 á ákvörðunum skattstjóra um þessi efni til ríkisskattstjóra sem tekur endanlega ákvörðun í málinu. Samkvæmt þessu falla slíkar ívilnunarbeiðnir, sem hér um ræðir, utan valdsviðs yfirskattanefndar. Ber því að vísa þessum þætti málsins frá yfirskattanefnd. Með úrskurði sínum, dags. 5. mars 2004, veitti skattstjóri kæranda nokkra ívilnun í sköttum til viðbótar ívilnun sem kæranda hafði verið veitt við almenna álagningu opinberra gjalda árið 2003 á grundvelli umsóknar sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2003. Samkvæmt framansögðu er sá þáttur málsins kæranlegur til ríkisskattstjóra. Í samræmi við það og með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003 og reglur ríkisskattstjóra nr. 212/1996, sem birtar eru í B-deild Stjórnartíðinda, er kæran framsend ríkisskattstjóra til afgreiðslu að því leyti sem hún varðar ívilnun.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað. Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún varðar beiðni um ívilnun og send ríkisskattstjóra til meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja