Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á vangreidda staðgreiðslu

Úrskurður nr. 931/1997

Staðgreiðsla 1994

Lög nr. 45/1987, 6. gr., 28. gr.   Reglugerð nr. 591/1987, 2. gr. 1. mgr. 17. tölul.  

Skattstjóri hækkaði reiknað endurgjald kæranda í kjölfar lækkunar ýmissa gjaldaliða í rekstrarreikningi hans og ákvað álag á vangreiddra staðgreiðslu kæranda af reiknuðu endurgjaldi. Álag þetta var fellt niður með vísan til þess að í skattframtali kæranda viðkomandi ár hefði endurgjald verið tilgreint undir því marki sem halda má utan staðgreiðslu. Þá hefði skattstjóri engar athugasemdir gert varðandi staðgreiðsluskil kæranda á staðgreiðsluárinu.

I.

Með kæru, dags. 9. maí 1996, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra frá 15. apríl 1996 til yfirskattanefndar. Með hinum kærða úrskurði staðfesti skattstjóri ákvörðun sína frá 3. febrúar 1996 um álag á vangreidda staðgreiðslu kæranda staðgreiðsluárið 1994 af reiknuðu endurgjaldi vegna fréttaritarastarfa. Álag skv. 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, var með kæruúrskurði skattstjóra endanlega ákvarðað 3.936 kr. og álag skv. 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laganna var ákvarðað 4.826 kr. Byggði skattstjóri á því að reiknað endurgjald kæranda hefði með úrskurði skattstjóra, dags. 6. nóvember 1995, verið ákvarðað 466.925 kr. sem væri umfram þau mörk sem heimilað væri að halda utan staðgreiðslu.

Af hálfu kæranda er til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags vísað til rökstuðnings í bréfum og kæru til skattstjóra, dags. 14. júlí og 1. ágúst 1995, þar sem m.a. kemur fram að kærandi hafi litið á fréttaritarastarf sitt sem áhugamál þar sem leitast hefði verið við að hafa fyrir útlögðum kostnaði.

Með bréfi, dags. 12. júlí 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem kæran er órökstudd og málið vanreifað af hálfu kæranda."

II.

Engin efni þykja vera til að vísa kæru þessari frá yfirskattanefnd, svo sem krafist er af hálfu ríkisskattstjóra, enda þykir nægilega ráðið um kæruefnið og kröfur kæranda.

Skattframtali kæranda árið 1995 fylgdi rekstrarreikningur vegna fréttaritarastarfa hans. Færði kærandi til tekna á skattframtali reiknað endurgjald að fjárhæð 43.664 kr. vegna þessa starfa, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, svo og færði hann fjárhæðina til gjalda í rekstrarreikningnum, sbr. 3. mgr. 1. tölul. 31. gr. sömu laga. Skattstjóri gerði m.a. þá breytingu á skattframtali kæranda árið 1995 að hann hækkaði reiknað endurgjald í 374.425 kr. í kjölfar lækkunar ýmissa gjaldaliða í rekstrarreikningnum. Reiknaði skattstjóri álag, sem um er fjallað í úrskurði þessum, af þeirri fjárhæð að viðbættu 92.500 kr. endurgjaldi frá sambýliskonu kæranda.

Að virtu umfangi fréttaritarastarfa kæranda, sem hann hefur haft með höndum um allmargra ára skeið, þykir bera að telja þau sjálfstæða starfsemi hans. Með 17. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, er heimilað að halda endurgjaldi, sem maður skal reikna sér vegna starfs við sjálfstæða starfsemi sína, utan staðgreiðslu ef starfsemin er svo óveruleg að reiknuð laun manns vegna starfseminnar eru eigi hærri, miðað við heilt ár, en ákveðin fjárhæð sem staðgreiðsluárið 1994 var 177.466 kr. Reiknuð laun kæranda, sem hann gerði grein fyrir í skattframtali sínu árið 1995, voru undir þessu marki. Að þessu athuguðu og þar sem skattstjóri virðist engar athugasemdir hafa gert varðandi staðgreiðsluskil kæranda á staðgreiðsluárinu 1994, sbr. ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1987, þykir bera að fallast á kröfu kæranda um að fella niður umrætt álag.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja